Laugardagur 27. nóvember 2010

331. tbl. 14. árg.

E inhver bjartsýnismaðurinn hefur kannski haldið að Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnlaganefndar myndi láta það vera á sjálfan kjördaginn að höggva í ákveðna frambjóðendur til stjórnlagaþingsins eða segja kjósendum fyrir verkum. En nei, nei. Það nægði henni ekki að gagnrýna nokkra frambjóðendur fyrr í vikunni fyrir þann skelfilega glæp að hafa kynnt sig fyrir kjósendum í auglýsingum samkvæmt þeim lögum sem um kosningarnar gilda.

Í morgun réðst hún til atlögu við nokkra kjósendur sem lýstu skoðun sinni á nokkrum frambjóðendum með auglýsingu í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Auglýsingarnar voru með afar hófstilltum hætti. Nokkrir kjósendur tóku sig til og bentu á 10 frambjóðendur sem þeir telja að myndu starfa af hófsemi og ábyrgð á stjórnlagaþinginu. Auglýsingarnar báru yfirskriftina „Stöndum vörð um stjórnarskrána:“

Í Meinlokum Rásar 1 í morgun var hringt í Guðrúnu og spurt hvernig kosningin gengi fyrir sig og svona. Allt gott með það þótt vart þurfi að taka það fram að í þættinum var eingöngu rætt við þá sem töldu þetta stjórnlagaþing það helsta sem gerst hefði frá mikla hvelli. Enda er þetta Ríkisútvarpið. Þegar umsjónarmaður þáttarins var að reyna að kveðja Guðrúnu og slíta samtalinu kom þessi romsa frá henni:

Mér hugnast ekki alveg þessi viðleitni til að búa til lista sem að ég hef séð núna í blöðunum. Það eru stórar auglýsingar. Mér finnst þetta tækifæri til persónukjörs, að kjósa einstaklinga vera mjög mikilvægt og þegar ég sé lista komna upp þá hugsa ég bíddu nú við þarna býr eitthvað að baki. Þannig að mér hugnast ekki að kjósa blokkir inn af fólki sem að maður veit í rauninni ekki hvað stendur fyrir og hvort það hefur einhverja ákveðna hagsmuni þá sem það ber fyrir brjósti eða fer þarna inn til þess að valda, hvað eigum við að segja, hagsmunaárekstrum. Ég held að fólk eigi að nota tækifærið og kjósa einstaklinga.

Guðrún var alls ekki spurð um þetta heldur vildi endilega koma þessu að.

Hvar þekkist annað eins og að framkvæmdastjóri almennra kosninga sé ekki aðeins eiginkona eins frambjóðandans heldur einnig gargandi á einstaka frambjóðendur og kjósendur? Hvar í veröldinni myndi manneskja í slíkri stöðu komast upp með að bera það á ákveðna frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra að þeir séu með annarleg sjónarmið og hagsmuni? Þar búi eitthvað að baki!