Gjaldeyrishöftin eru eitt dæmi um ranga ákvörðun, en skattahækkanirnar og aukið flækjustig í skattkerfinu eru önnur. Þá hefur ríkisstjórnin ekki skorið nægilega mikið niður í ríkisútgjöldum. |
– Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins 25. nóvember 2010. |
V iðtal Morgunblaðsins við Ragnar Árnason í vikunni hefur ekki enn leitt til viðtals við hann hjá Agli eða Spegli Ríkisútvarpsins. Ragnar er heldur ekki Þórólfur eða Þorvaldur, hvað þá Sigrún Davíðsdóttir. Gjaldeyrishöftin sem áttu að vera til nokkurra mánaða hafa eru nú orðin tveggja ára. Um þau og afleiðingar þeirra segir í viðtalinu.
Ragnar segir að hagvöxtur sé afskaplega mikilvægur til að rífa hagkerfið upp að nýju og að gjaldeyrishöftin standi í veginum fyrir raunverulegum hagvexti til lengri tíma. Þau geri endurgreiðslu á erlendum lánum ríkisins líka erfiðari.
„Gjaldeyrishöftin þýða það í raun og veru að við höfum tekið gjaldmiðilinn okkar úr samhengi við umheiminn. Afleiðingin er sú að við höldum uppi röngu gengi krónunnar, en af aflandsgengi krónunnar getur maður ráðið að gengi krónunnar ætti að vera mun lægra en Seðlabankinn segir til um. Sagan er sú sama ef maður horfir á íslenskar hagtölur og skuldastöðu þjóðarinnar út á við. Við þurfum á lægra gengi krónunnar að halda til að geta borgað þessar skuldir nægilega hratt niður svo að við þurfum ekki að vera klifjuð þungum vöxtum áratugum saman, en vaxtagreiðslurnar fara nærri því að vera hundrað milljarðar króna á ári, sem er einn fimmti af útgjöldum ríkisins.“ Ragnar segir að höftin séu tæki til að falsa gengi krónunnar, gera útflutning óhagkvæmari og innflutning hagkvæmari en ella væri. „Þessi ríkisstjórn hefur leiðst út í það að halda uppi gjaldeyrishömlum til að láta eins og að kaupmáttur fólks í landinu sé meiri en hann er í raun og það er það versta við höftin. Við flytjum of mikið inn og flytjum of lítið út.“ Vaxtarbroddar spretta ekki En Ragnar segir að höftin hafi líka önnur og ekki síður alvarleg áhrif á hagkerfið. „Vegna haftanna sjálfra geta menn ekki átt í venjulegum viðskiptum við útlönd. Ímyndum okkur fólk, sem vill stofna fyrirtæki á Íslandi til að flytja út vörur og þarf að borga fyrir erlend aðföng líka. Gjaldeyrishöftin gera alla slíka starfsemi flóknari og erfiðari og koma eflaust stundum í veg fyrir að hún verði til. Ýmsir vaxtarbroddar sem gætu undir eðlilegum kringumstæðum sprottið upp hreinlega geta það ekki í haftaumhverfinu. Hversu stórt þetta vandamál er í milljörðum talið er erfitt að segja, en það gæti verið mjög stórt og verður stærra því lengra sem haftatímabilið verður.“ Ragnar segir að þeir sem halda að sterk króna hjálpi til við að greiða niður erlendar skuldir misskilji vandann. „Við skuldum alltaf sömu fjárhæðir í evrum og dollurum sama hvert gengi krónunnar er. Við getum ekki farið til útlanda og sagt að Seðlabanki Íslands hafi ákveðið að gengi evrunnar eigi að vera 150 krónur. Lánardrottnar segja bara „nei takk“ við slíku. Eina leiðin út er að safna saman því magni af evrum og dollurum sem við skuldum til að geta greitt skuldirnar. Það gerum við bara ef útflutningur er mikill og hagkerfið vex með sæmilegum hraða.“ Ragnar minnir á að í nýjustu hagspá Hagstofunnar, sem sé mun neikvæðari en spár ríkisstjórnarinnar, er gert ráð fyrir því að viðskiptajöfnuður við útlönd verði neikvæður á hverju ári til ársins 2015. „Hagstofan gerir með öðrum orðum ráð fyrir því að á hverju ári til ársins 2015 söfnum við meiri skuldum en greiðum þær ekki niður. Þetta er örugglega gert til þess að landsframleiðslutölurnar líti vel út. Það er hægt að láta landsframleiðsluna vaxa og halda uppi kaupmætti eins og hagstofan gerir ráð fyrir, með því að einkaneysla vaxi á hverju ári. Það er þá væntanlega gert með lántöku eða með því að ganga á sparnað, því ekki eru tekjur fólks að aukast. Þar með eykst mæld landsframleiðsla á því ári miðað við það sem hefði orðið, þótt hækkunin sé ekki mikil. Aðalatriðið er að við lok þessa tímabils, árið 2015, er skuldastaða Íslands verri en hún er núna.“ Ragnar segir þetta beina afleiðingu af of sterku gengi krónunnar. Of lítið sé flutt út og of mikið flutt inn. „Sterkt gengi krónunnar er þáttur í þessu, en það er margt annað sem spilar með. Við viljum auðvitað að lífskjör séu sem best og það þýðir að innfluttar vörur séu sem ódýrastar. Það gerist hins vegar ekki með sjálfbærum hætti nema ef útflutningsgeirarnir eru sterkir. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur hins vegar þau áhrif að draga allan mátt úr útflutningsfyrirtækjum.“ |
Ragnar vekur einnig athygli á þeim siðferðisvanda sem höftin hafa í för með sér.
Ragnar segir líka að höftin séu pólitískt hættuleg. „Núna er einhver aðili á Íslandi, Seðlabankinn, sem ákveður hver fær undanþágur frá höftunum. Það kallar á ekkert annað en gerræðisákvarðanir, sem gefur tækifæri til pólitískra ákvarðana og jafnvel spillingar um það hvernig höftin eru framkvæmd. Það vill svo til að ég sit í bankaráði Seðlabankans, en við í bankaráðinu erum ekki spurð að því hvernig eigi að gera þessa hluti. Vegna setu minnar í bankaráði hafa fjölmargir aðilar hins vegar haft samband við mig og kvartað undan framkvæmd þessara reglna. Miðað við þeirra kvartanir er margt athugavert við framkvæmdina. Það virðist vera handahófskennt hver fær undanþágu og hver ekki.“
Ragnar segir gjaldeyrishöft tilvalið tæki fyrir stjórnvöld, sem vilji hafa fingurna í öllu sem gerist í efnahagslífi þjóðarinnar, einkum því sem tengist inn- og útflutningi og millifærslum á fjármunum. „Þetta er enn ein hindrunin fyrir verðmætasköpun og er afturhvarf til skipulagshyggju gamallar tíðar, sem var lögð til hliðar með falli Sovétríkjanna. Þetta er líka afturhvarf til þeirrar stefnu sem ríkti hér á landi um áratugaskeið. Enn ein ástæðan fyrir því að Ragnar telur nauðsynlegt að losna við höftin sem fyrst er sú að því lengur sem slík höft eru við lýði því erfiðara er að losna við þau. „Ástæðan er sú að allir fara að aðlagast höftunum, haga rekstri sínum og skipulagi í kringum þau og þannig fá þeir ákveðna hagsmuni af því að þau séu við lýði sem lengst. Maður er strax farinn að heyra það frá fjármálafyrirtækjum að þau vilja ekki að höftunum sé aflétt hratt og vel, sem er þjóðhagslega æskilegt og nauðsynlegt.“ |
Íslendingar ættu að hafa næga reynslu til að hafna haftastefnu vegna þeirrar spillingar sem hún elur af sér. Þeir sem vilja kynna sér þau mál betur ættu að glugga í bókina Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson sem var endurútgefin nýlega í kilju. Hún fæst að sjálfsögðu í bóksölu Andríkis. Með sendingu heim að dyrum kostar hún aðeins kr. 1900.