Föstudagur 26. nóvember 2010

330. tbl. 14. árg.
The constitution had nothing to do with the bank collapse, and it is not standing in the way of rebuilding. Right now we need the basic social structures in place, not for them to be torn down.
– Þorsteinn Arnalds í viðtali við The Washington Post í dag um framboð sitt til stjórnlagaþings.

Á

 

Þorsteinn Arnalds vill ekki vega að undirstöðum þjóðfélagsins á óvissutímum.

morgun verður kosið til hins svonefnda stjórnlagaþings. Vegna hins fráleita kosningafyrirkomulags og fjölda frambjóðenda hafa íslenskir fjölmiðlar ekki megnað að kynna sjónarmið þeirra. Frambjóðendur sjálfir virðast flestir hafa látið hræða sig frá því að kynna sig, hvort sem er með almennu kynningarefni eða skrifum í blöð eða á netið. Kjósendur hafa aldrei vitað jafn skammarlega lítið um skoðanir og bakgrunn frambjóðenda. Þetta stjórnlagaþingsbrölt er því einhver mesta viðurkenning sem hefðbundnar kosningar með stjórnmálaflokkum hafa fengið um árabil. Allt tal um „persónukjör“ hlýtur að heyra sögunni til eftir að þetta furðuverk er um garð gengið.

Og það er mikilvægt atriði sem Þorsteinn Arnalds bendir á í viðtali við The Washington Post í dag. Það hefur hrikt í mörgu undanfarið. Margir hafa fengið skell sem þeir eiga eftir að jafna sig á. Að efna til ats um stjórnarskrá lýðveldisins á meðan menn eru að ná áttum er ósvífni. Stjórnskipan Íslands hefur staðið traustum fótum í 66 ár. Hún haggaðist ekki þótt fjármálakerfi þjóðarinnar færi á hliðina, eins og fjármálakerfi svo margra landa hafa gert fyrr og nú. Er það þá brýnasta verkefnið að sarga í þessar traustu undirstöður?

F róðlegt er að bera saman framgöngu Ríkisútvarpsins nú og fyrir allsherjaratkvæðagreiðsluna um Icesave-lög ríkisstjórnarinnar í mars. Ríkisstjórnin var á móti þeirri atkvæðagreiðslu. Þess vegna var Ríkisútvarpið það líka. Dagana fyrir kosninguna var fyrst og fremst rætt um að svo lítil ástæða væri til að kjósa að hugsanlega yrði hætt við kosninguna. Aðalefnið kvöldið fyrir kjördag var að sjálfsögðu langt einkaviðtal við Steingrím J. Sigfússon sem sagði nýtt og betra tilboð á borðinu. Hann myndi ekki kjósa.

En núna? Núna vill ríkisstjórnin að sem flestir kjósi. Þess vegna vill Ríkisútvarpið það líka. Nú eru gerðir langir sjónvarpsþættir um hve kosningin sé einföld og rætt við tóma stuðningsmenn kosninganna. Í löngum umræðuþætti í gær var til dæmis rætt við tvo merka spekinga. Annan frá „Stjórnarskrárfélaginu“, sem er félagsskapur fólks sem fór að velta fyrir sér hvað hefði farið úrskeiðis í bankaþrotinu og staðnæmdist auðvitað við stjórnarskrá lýðveldisins. Hinn spekingurinn var frá „Lýðræðisfélaginu Öldu“, sem stofnað var fyrir viku. Þar á bæ eru menn að sögn ekki síður spenntir.

Svona voru nú umræðurnar. Einnig voru fengnar Guðrún Pétursdóttir og Björg Thorarensen. Guðrún er formaður stjórnlagaþingsnefndar ríkisstjórnarinnar og Björg verður í raun höfundur hinnar nýju stjórnarskrá sem fulltrúar á stjórnlagaþingi halda að þeir semji sjálfir. Fyrst var búin til innihaldslaus frasasamkoma, „þjóðfundur“, þar sem fólk sat í litlum hópum og skrifaði niður stikkorð. Svo er búin til nefnd spekinga, þar sem Björg er ein meginsprautan, og hún á að leggja tillögu fyrir stjórnlagaþing, byggða á gildum þjóðfundar, það er að segja hinum almennu stikkorðum. Björg situr því nú og semur nýja stjórnarskrá sem stjórnlagaþingfulltrúar fá að velta milli sín í nokkrar vikur þangað til þeir trúa því að þeir hafi samið hana sjálfir. Það þurfti því ekki að koma á óvart að Guðrún og Björg hvettu til mikillar þátttöku, til að „umboð þingsins“ yrði sem mest.

Þegar rætt var við „fólkið á götunni“ var það umvörpum á móti stjórnlagaþinginu og þessu brölti. Það fólk fékk fær hins vegar fáa fulltrúa þegar Ríkisstjórnarútvarpið beitir sér.

Já, vel á minnst, hvers vegna ætli maður eins og Sigurður Líndal hafi ekki verið fenginn í „kynningarþátt“ Ríkisútvarpsins. Fáir hafa lengur sinnt stjórnarskrá og réttarsögu en Sigurður. Ekki vantar að hann sé boðinn og búinn að svara fjölmiðlamönnum. Við venjulegar kringumstæður hefði eflaust verið leitað til hans. Ætli fjarvera hans tengist nokkuð því að hann hefur bent á fásinnuna í stjórnlagaþingshugmyndinni og vanþekkingu gasprara á stjórnarskránni sjálfri. Slíkur maður á ekkert erindi í peppþætti Ríkisstjórnarútvarpsins.

En hvað á fólk að gera, nú þegar vitleysan skellur á? Á fólk að kjósa? Að mati Vefþjóðviljans er illskást að menn mæti á kjörstað og styðji í efstu sæti þá frambjóðendur sem beinlínis bjóða sig fram til að verja stjórnarskrána og fullveldið. Slík varðstaða réttlætir ferð á kjörstað, en annað gerir það ekki.