E ins og menn vita ákvað naumur meirihluti Alþingis að Geir H. Haarde skyldi dreginn fyrir landsdóm. Er honum ýmislegt að sök, ekki síst að hafa ekki gert eitt og annað sem engin lagaskylda hvíldi á honum að gera, en sumum þykir eftir á sem ágætt hefði verið ef hefði verið gert.
Samkvæmt lögum ber að skipa manni, sem ákærður er fyrir landsdómi, verjanda svo fljótt sem verða má. Alkunna er, að um tveir mánuðir eru frá því meirihluti Alþingis ákvað málshöfðun og fram kom hjá Geir H. Haarde sama dag hvaða lögmaður hann vildi að annaðist vörn sína.
Enn hefur honum ekki verið skipaður verjandi.
Þegar Geir kvartar yfir þessu við forseta landsdóms, þá er kvörtun hans send sækjanda málsins til umsagnar og gefin sú skýring, í fullri alvöru, að það sé ekki vitað hvort Geir hafi verið ákærður. Það sé umdeilt hvort miða beri við samþykkt Alþingis eða útgáfu saksóknara á ákæru. Þessir tveir mánuðir hafa með öðrum orðum ekki dugað til að fá úr því skorið hvort búið sé að ákæra Geir eða ekki.
Þetta er fólkið sem ætlar að dæma um það hvort Geir H. Haarde hafi framið refsivert brot með því að gera ekki eitthvað sem honum var þó ekki skylt að gera.
Fólkið sem eftir tveggja mánaða vangaveltur hefur enn ekki komist að niðurstöðu um það hvort yfirleitt sé búið að ákæra Geir, það er fólkið sem ætlar að dæma hann fyrir að hafa ekki séð við þroti bankanna.
Þetta minnir á rannsóknarnefnd Alþingis, sem fór sjálf tíu vikur fram úr lögákveðnum skiladegi sínum, en gagnrýndi svo aðra fyrir skort á formfestu.