Þriðjudagur 23. nóvember 2010

327. tbl. 14. árg.

R

Í viðtali við Ríkisútvarpið leggur Þorsteinn Arnalds áherslu á að verja stjórnarskrána.

íkisútvarpið hefur tekið viðtöl við nær 500 frambjóðendur til hins furðulega stjórnlagaþings. Meðal viðmælenda er Þorsteinn Arnalds. Þar skýrir hann í nokkrum orðum hvers vegna engin þörf er á þessu rándýra stjórnlagaþingi og nauðsyn þess að verja stjórnarskrána fyrir þessum atgangi. Hlusta má á viðtalið hér.

Þorsteinn ritaði einnig grein í Morgunblaðið síðastliðinn laugardag. Þar segir meðal annars: „Skyndiendurskoðun á stjórnarskránni er í takt við annað sem ríkisstjórnin býður upp á. Til hennar er efnt nú þegar ólga og upplausn er í þjóðfélaginu og æsingamenn fá nær einir orðið. Drjúgur hluti landsmanna á enn ófarna talsverða leið út úr því moldviðri sem ákaft hefur verið þyrlað upp, í þeirri von að fólk dragi rangar ályktanir af bankaþrotinu. Við þær aðstæður hefðu venjuleg stjórnvöld reynt að verja undirstöðurnar og tryggja að grunnur þjóðfélagsins yrði ekki ólgunni að bráð.“

Og Þorsteinn segir jafnframt: „Stjórnarskráin þarfnast ekki endurskoðunar. Mikilvægasta hlutverk hennar er að vernda borgarana fyrir ríkisvaldinu. Einföld og skorinorð stjórnarskrá er líklegri til að þjóna því hlutverki en langur listi fagurra fyrirheita. Aldrei er meiri þörf á að sjá stjórnarskrána í friði en á óróatímum. Það er af og frá að efna nú til heildarendurskoðunar hennar, hvað þá að til þess verks sé skipað fólki sem þarf aldrei að leita endurkjörs og ber ekki ábyrgð gagnvart neinum. Stjórnlagaþingið er misráðið, en sú staðreynd breytir ekki hinu, að kosið verður til þess eftir viku. Úr því svo er komið, þá er eins gott að fólk, sem veit hvað stjórnarskrá er og hvað ekki, mæti og kjósi þá frambjóðendur sem líklegir eru til að verja grundvallaratriði stjórnskipunarinnar. Ég býð mig fram til stjórnlagaþings, beinlínis í þeim varnartilgangi. Sérstaklega vil ég gæta þess að ekki verði gengið á réttindi borgaranna, bæði eignarrétt og persónuleg réttindi, og þess að fullveldi landsins sé varið. Ég mun aldrei styðja tillögur sem auðvelda það að skerða fullveldi Íslands.“

Í almennri kynningu og á kápu bókarinnar Stormurinn – reynslusaga ráðherra, eftir Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra og núverandi þingmann Samfylkingarinnar segir um efni hennar:

Björgvin G. Sigurðsson varð ungur viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Nokkrum mánuðum síðar brast á mesta fárviðri efnahags-og stjórnmála sem um getur í Íslandssögunni.

Björgvin varð viðskiptaráðherra á vordögum 2007. Nokkrum mánuðum síðar var komið haustið 2007. Hlýtur mörgum að þykja forvitnilegt að lesa um hvað gerðist þarna haustið 2007 sem var svo stórbrotið fárviðri að ekki tekur því að minnast á ósköpin sem dundu yfir ári síðar, haustið 2008, við fall bankanna.