Helgarsprokið 21. nóvember 2010

325. tbl. 14. árg.

Þ að er kominn tími til að endurskoða stjórnarskrána, er línan frá ríkisstjórninni og bloggurum hennar. Undir þeim formerkjum hefur stjórnin stofnað nýtt ríkisapparat, stjórnlagaþing, þótt það sé sem fyrr Alþingi sem hafa mun síðasta orðið um breytingar á stjórnarskránni. Ríkisstjórnin, sem þykist í fyrsta lagi vera velferðarstjórn og í öðru lagi að glíma við mikinn vanda í ríkisfjármálum, gefur lítið fyrir þessi mikilvægu verkefni sín með því að henda fleiri hundruð milljónum króna í þessa nýju ríkisstofnun.

Þrátt fyrir þetta tal um nauðsyn endurskoðunar er ekkert sérstakt sem bendir til að stjórnarskráin hafi brugðist vonum Íslendinga. Um það eru engin frambærileg dæmi nefnd. Með sæmilegri sanngirni er ekki hægt að segja annað en stjórnarfar á Íslandi hafi verið ágætt í samanburði við flest annað sem mönnum hefur staðið til boða, hvort sem litið er aftur í tímann eða til annarra landa. Sjálfsagt myndu flestir, Vefþjóðviljinn þar með talinn, vilja skipa ýmsum málum með öðrum hætti en gert er. En fæst þeirra tengjast stjórnskipuninni. Þessum breytingum má undantekningarlítið ná fram með breytingum á almennum lögum. Og það er hin rétta leið í helstu álitamálum nú um stundir.

Með línunni frá ríkisstjórninni er líka látið í það skína að það hafi verið algjörlega vanrækt frá árinu 1944 að skoða hvað betur mætti fara í stjórnarskránni. Svo er þó alls ekki. Frá 1944 hefur stjórnarskránni verið breytt sjö sinnum. Til breytinga á stjórnarskránni þarf samþykki tveggja þinga með þingrofi og kosningum á milli. Meirihluti (2/3) þinga sem setið hefur frá stofnun lýðveldisins hefur samþykkt breytingar á stjórnarskránni. Stjórnarskráin hefur með öðrum orðum verið í nær samfelldri endurskoðun frá 1944 enda hafa sérstakar stjórnarskrárnefndir Alþingis starfað með það að markmiði. Meiriháttar uppskurður á skránni hefur aldrei orðið raunin. Skammt er þó að minnast talsverða breytinga á mannréttindakafla hennar árið 1995. En þótt menn hafi stigið varfærin skref þá þýðir það ekki að endurskoðunin hafi mistekist. Það hefur einfaldlega ekki þótt næg ástæða til að hrófla við fleiru.

Stjórnarskráin hefur heldur ekki orðið mönnum sérstakur ásteytingarsteinn. Þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti fór inn á nýjar brautir með því að synja lögum staðfestingar hefði jafnvel mátt búast við verulegum vandræðum, stjórnmálakreppu og málaferlum. Úr þeirri tvísýnu rættist þó án uppþota eða málaferla.

Vafalaust spyrja einhverjir hvort stjórnarskráin hafi ekki brugðist í bankahruninu. Ef Vefþjóðviljinn væri norræn velferðarstjórn myndi hann svara þeirri spurningu með því að benda á að Svíum kom ekki til hugar að kasta stjórnarskrá sinni ofan í rjúkandi rústir bankakerfisins þar í landi 1992. Að öðru leyti er heldur ekkert sem bendir til samhengis milli stjórnskipunar Íslendinga og þess hve illa þeim tókst til við bankastörf í byrjun 21. aldar. Þvert á móti ætti það að vera talið stjórnarskránni til tekna að áfallið sem Íslendingar urðu fyrir haustið 2008 hafi ekki leitt til meiri upplausnar en raun bar vitni.

Í Morgunblaðsgrein 16. nóvember síðastliðinn benti Atli Harðarson heimspekingur og kennari svo á atriði sem lítt hefur verið rætt innan um allar yfirlýsingarnar um hve auðvelt sé að hrista nýja stjórnarskrá fram úr erminni:

Það er engin leið að sjá fyrir allar afleiðingar af stjórnarskrárbreytingum. Sumar þeirra koma ef til vill ekki í ljós fyrr en að löngum tíma liðnum. Áhrif stjórnarskrárbreytinga á gildi og merkingu annarra laga kunna líka að vera flókin og lítt fyrirsjáanleg. Þess vegna á að fara varlega í að breyta stjórnarskránni. Ef til vill á alls ekki að breyta henni. Líklega yrði til meira gagns að hvetja fólk til að virða hana, kynna sér hana og reyna að skilja til hvers hún er og hvað hún þýðir.

Ég vona að af þeim mikla fjölda sem gefur kost á sér til stjórnlagaþings séu að minnsta kosti 25 sem lýsa yfir að þeir vilji litlar breytingar gera á stjórnskipaninni. Kjósendur geta þá valið að halda í hefðina. Sjálfur ætla ég að kjósa þann sem ég treysti best til að fara varlega og víkja lítt eða ekki frá því sem hingað til hefur reynst vel á Norðurlöndum. Nógu margt er þegar á hverfanda hveli. Að ætla sér að töfra fram nýja stjórnskipan, og það á fáeinum vikum, minnir mig óþægilega mikið á stórbokkaskapinn í ólánsmönnunum öllum sem þóttust hér fyrir nokkrum árum hafa fundið upp bankann.

Það er talsverð óvissa framundan hjá Íslendingum. Að minnsta kosti meiri óvissa en margir reiknuðu með fyrir nokkrum árum. Vilja menn í alvöru auka á þessa óvissu með stjórnarskrárhringli og þeim lagaflækjum sem af því kunna að leiða?