Miðvikudagur 17. nóvember 2010

321. tbl. 14. árg.

A

Þorsteinn Arnalds: „Megininntak stjórnarskrár okkar er fjarri því að vera úrelt og skammt er að minnast gagngerrar endurskoðunar mannréttindaákvæða hennar. Stjórnarskráin kom bankaþrotinu ekki við og hún stendur ekki í vegi uppbyggingar eftir það. Afleitt væri að eyðileggja stjórnarskrána, ofan á allt annað.“

tli Harðarson heimspekingur og aðstoðarskólameistari er einn skýrasti hugsuður landsins, að minnsta kosti ef talið er út frá þeim sem tjá sig opinberlega af og til. Í gær skrifar hann grein í Morgunblaðið vegna yfirvofandi kosningar til hins fráleita stjórnlagaþings. Í greininni segir Atli að fyrir örfáum árum hafi margir landsmenn talað digurbarkalega um að Íslendingar hefðu meira viðskiptavit en aðrir og sumir hefðu næstum látið „eins og þeir hefðu fundið upp bankann“. Nú séu menn hættir þeim söng en í staðinn sé kominn nýr söngur, og hreyki menn sér nú „enn hærra og þykjast geta fundið upp ríkið eða að minnsta kosti nýja stjórnskipan fyrir það.“

Atli segir að Íslendingar búi að norrænni stjórnlagahefð sem hafi reynst vel um langan aldur. Ef frá séu talin þau ár sem Danmörk og Noregur sættu þýsku hernámi, hafi fá eða engin ríki haft betra stjórnarfar en Norðurlönd, síðan þau hafi tekið upp „stjórnarskrár af því tagi sem enn eru í gildi og verða vonandi áfram.“ Segist Atli „vona að af þeim mikla fjölda sem gefur kost á sér til stjórnlagaþings séu að minnsta kosti 25 sem lýsa yfir að þeir vilji litlar breytingar gera á stjórnskipaninni. Nógu margt sé þegar á hverfanda hveli.

Ekki er öruggt að Atla hafi orðið að ósk sinni. Flestir frambjóðendur bjóða upp á háfleyga moðsuðu um drauma sína og jafnvel furðukenningar í bland við ranghugmyndir og misskilning. Þó eru inni á milli frambjóðendur sem virðast skilja stjórnarskrá og vita hvað er í húfi. Stjórnlagaþingið er fráleitur skrípaleikur, en samsvarandi ríkisstjórn hefur ákveðið að efna til þess, hugsanlega í þeirri von að ekki kjósi nema samsvarandi kjósendur. Úr því sem komið er, verða aðrir hins vegar að taka til varna og kjósa þá sem líklegir eru til að verja stjórnarskrána.

Í auglýsingu í dag varar frambjóðandinn Þorsteinn Arnalds við því að menn eyðileggi stjórnarskrána ofan á allt annað.

Því miður er stórhætta á að svo fari, því alþingi er skipað eins og það er skipað, og líkur eru á að þeir sem kjósa á stjórnlagaþingið verði aðallega áhugamenn um óðabreytingar á stjórnarskrá. Vefþjóðviljinn leyfir sér að vekja athygli á framboði Þorsteins Arnalds til stjórnlagaþings, en hann er í hópi fárra frambjóðenda sem beinlínis vilja verja stjórnskipunina og fullveldi landsins. Slíka frambjóðendur er nauðsynlegt að styðja.