Fimmtudagur 18. nóvember 2010

322. tbl. 14. árg.
E ins og menn þekkja eyðir norræna velferðarstjórnin mörg hundruð milljónum króna í stjórnlagaþing um þessar mundir. Þessar milljónir eru ekki til í ríkissjóði. Og því miður virðist „Icesave-málið“ ekki hafa valdið nægu tjóni á lánstrausti ríkissjóðs til að koma í veg fyrir lántökur vegna stjórnlagaþingsins, tónlistarhússins, ESB aðlögunar eða kynjaðrar hagstjórnar.

Í vikunni voru borin í hús sýnishorn af kjörseðlum þeim sem notaðir verða í skrípaleiknum. Sýnishornin voru merkt kjósendum en þó var enginn sjáanlegur munur á þeim. Hörðustu kommar fengu sama sýnishorn og mýkstu frjálshyggjumenn. Ungir sama sýnishorn og gamlir. Og til hvers voru sýnishornin þá merkt? Jú norræna velferðarstjórnin hefur þarna séð sér leik á borði að eyða aukalega um 10 milljónum króna. Póstburður á bréfum er jafnan sjöfalt dýrari ef hann er merktur viðtakanda en ef bréfum er dreift ómerktum á hvert heimili. Á sama tíma og sýnishornin voru borin í hús var borin á hvert heimili skrudda sem við fyrstu sýn virtist nýja símaskráin en þegar betur var að gáð reyndist augljóst að Gillz hefði ekki haft hönd í bagga. Þarna var þá komið ritverk með kynningu á frambjóðendunum 525. Það hefði bæði sparað stórfé í prentkostnaði og póstburði að nota eina síðu í þessu meistaraverki undir sýnishorn af kjörseðlunum.

F áir ef nokkrir njóta meira trausts í lífi fólks en bangsar. Það er alveg óskorað til að byrja með. Engu að síður eru þeir smám saman settir til hliðar því mannskepnan vill sífellt eitthvað nýtt, nýtt, nýtt. Hér fara tveir fulltrúar þeirra yfir starfsemi ríkisstofnunar sem margir líta á sem sjálfsagðan hlut. Myndbandið er einnig fróðlegt fyrir þá sem telja að fjármálakreppa og bóluhagkerfi hafi verið fundin upp ásamt hjólinu á Íslandi haustið 2008.