Þriðjudagur 16. nóvember 2010

320. tbl. 14. árg.

Ó kleif skuldafjöll umlykja nú mörg vestræn ríki. Einstök ríki fá vart lán eða þurfa að greiða hrikalega vexti vilji þau endilega velta vandanum á undan sér með enn frekari lántöku. Evrópusambandið sem áður setti skilyrði um jafnvægi í ríkisrekstri aðildarríkja að viðlagðri refsingu hefur nú stofnað sjóð til að verðlauna mestu skussana. Grikkir hafa þegar þegið verðlaunin. Írar, Portúgalar, Spánverjar og Ítalir  færast nær og nær.

Ekki er að sjá nokkurt mynstur í því hvort þessi skuldasöfnun hefur fremur átt sér stað undir vinstri eða hægristjórn enda oft lítill munur þar á í raun.

Ef eitthvað mynstur er í þessu má kannski segja að það sé köflótt. Vissulega hefur einhvers konar frelsi verið aukið undanfarna áratugi á Vesturlöndum. Margt sem var bannað eða einokað af ríkinu áður er nú leyft. Símaþjónusta er ágætt dæmi þar um. En um leið og menn fengu frelsi fylgdi jafnan sögunni að eftirlit yrði aukið og hert. Samkeppniseftirlit, neytendavernd, fjármálaeftirlit, fjarskiptaeftirlit, hollustueftirlit, jafnréttiseftirlit, vinnueftirlit. Með þessu tók ríkið ýmist beina eða óbeina ábyrgð á atvinnurekstri, allt frá ísbúðum til innlánsreikninga. Afleiðingar þess að dreifa ábyrgðinni með þessum hætti blasa við í dag, enginn ber í raun ábyrgð en skattgreiðendur sitja uppi með reikninginn fyrir tjóninu. Svo hafa opinber útgjöld aukist víðast hvar. Jafnvel í bóluhagvexti undanfarinna ára tók hið opinbera stærri sneið til sín en áður.

Þessi lýsing er auðvitað ekkert annað en það sem stundum var kallað þriðja leiðin. Menn töldu sér trú um að með því að leyfa almenna atvinnustarfsemi undir handleiðslu eftirlitsstofnana og regluverks væri mögulegt að halda áfram að þenja ríkisbáknið út.

Nú er þessi blandaða leið gjaldþrota.