Mánudagur 15. nóvember 2010

319. tbl. 14. árg.

S tjórnvöldum þykir ekki nóg um upplausn og deilur í þjóðfélaginu og því hafa þau ákveðið að einmitt núna þurfi að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins og að skynsamlegast sé að efna til kosningar til sérstaks stjórnlagaþings. Það hefur gert það að verkum, að fjöldi lukkuriddara er nú í óða önn að finna sér einhver baráttumál, einhverjar stjórnarskrárbreytingar sem alls ekki þoli bið.

Sumum hefur ekki gengið betur en svo, að þeir nefna það fyrst af öllu að breyta þurfi þeirri stjórnarskrárgrein er fjallar um samband ríkisins og kirkju. Svo furðulega vill til, að þar er einmitt sú stjórnarskrárgrein sem minnstar líkur eru á að nokkru sinni verði breytt með stjórnarskrárbreytingu, og því sú grein sem stjórnlagaþingið á minnst erindi við, og er þá mikið sagt.

Í 62. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“ Í 2. mgr. 79. gr. segir svo, að ákveði alþingi slíka breytingu skuli hún borin undir þjóðaratkvæði.

Stjórnarskránni verður einungis breytt á alþingi, það þarf að gerast tvívegis og með alþingiskosningum á milli. Stjórnarskrárgrein verður því aldrei breytt nema meirihluti alþingismanna ákveði að efna til slíkrar breytingar. Vilji meirihluti alþingismanna gera þá breytingu, að hin evangelíska lúterska kirkja verði ekki lengur þjóðkirkja á Íslandi, verður það að sjálfsögðu gert með þeim hætti sem stjórnarskráin tiltekur, það er að segja með samþykkt alþingis sem í framhaldinu verður borin undir þjóðaratkvæði. Þessari stjórnarskrárgrein verður ekki breytt með stjórnarskrárbreytingu, nema þá að menn vilji festa þjóðkirkjuskipanina sérstaklega í sessi með því að afnema heimild alþingis til að gera á henni breytingar. En það munu þeir víst ekki vilja, sem tala hátt um að breyta 62. grein stjórnarskrárinnar. Kirkjuskipaninni verður því ekki breytt með stjórnarskrárbreytingu heldur lagabreytingu.

Þeir stjórnlagaþingframbjóðendur sem nefna breytingu á kirkjuskipan sem sitt helsta baráttumál, þeir vaða reyk. Þeir ættu fremur að bjóða sig fram til alþingis en stjórnlagaþings.

N ú stendur yfir kirkjuþing og þar er meðal annars fjallað um sparnaðartillögur, því kirkjunnar menn munu ætla að spara á næsta ári. Þær tillögur munu helst snúast um að sameina og fækka prestaköllum, þótt þjóðkirkjan sé í raun aðeins samband sókna. Kirkjuforystan mun hins vegar ekki láta sér detta í hug að hrófla við starfsmannahafinu sem á undanförnum árum hefur verið ráðið inn á biskupsstofu og margt hvert vígt, án þess að hafa nokkurn söfnuð annan en „verkefnisstjórann“ við hliðina á sér. Þar munu nú starfa tæplega fjörutíu manns og gegna mikilvægum hlutverkum eins og starfi „verkefnisstjóra lífsleikni þjóðkirkjunnar“. Kirkjunnar menn vilja ekki að gerð verði breyting á sambandi ríkis og kirkju. Þeir ættu kannski að velta fyrir sér, hvort sístækkandi herskari vælandi vígðra „verkefnisstjóra“ við skrifstofustörf á Laugavegi sé líklegur til að draga úr áhuga manna á slíkri breytingu?