Helgarsprokið 14. nóvember 2010

318. tbl. 14. árg.

E nginn Íslendingur þekkir baráttuna gegn einræðisstjórninni í Búrma betur en Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur og ritstjóri Þjóðmála. Hann hefur skrifað fjölda blaðagreina um ástandið í Búrma og skipulagt heimsókn forsætisráðherra útlagastjórnar lýðræðishreyfingarinnar hingað til lands. Á síðasta ári gaf Jakob út afar skemmtilega bók um þetta hryggilega efni. Það sem gerir bókina, sem nefnist Aung San suu Kyi og baráttan fyrir lýðræði í Búrma, ekki síst að skemmtilegri lesningu er að þar segir meðal annars frá kynnum Jakobs af fjölskyldu Aung San Suu Kyi sem hefur verið leiðtogi stjórnarandstöðunnar frá árinu 1988. Í tvo áratugi hefur Suu Kyi verið ein dáðasta kona heims. Barátta hennar fyrir lýðræðisumbótum í heimalandi sínu, Búrma, hefur vakið heimsathygli. Suu Kyi er einstök hugsjónakona á okkar tíð. Á fáeinum vikum varð hún sameiningartákn þjóðar sinnar andspænis grimmilegri kúgun herforingjastjórnar. Í rúma tvo áratugi hefur hún að mestu setið í stofufangelsi á heimili sínu í Rangoon.

Þær gleðifregnir hafa nú borist frá Búrma að Suu Kyi hafi verið sleppt úr haldi. Þessar fregnir eru þó óttablandnar á meðan herforingjarnir eru við völd. Óvíst er hvað vakir fyrir þeim.

Einungis 18 árum eftir að Aung San, faðir Suu Kyi, leiddi þjóð sína til sjálfstæðis frá Bretum, á meðan síðari heimsstyrjöldinni stóð, hafði herinn rænt völdum. Skömmu síðar voru aðrir stjórnmálaflokkar en Flokkur hinnar sósíalísku áætlunar í Búrma bannaðir. Sjálfur var Aung San myrtur á upphafsárum lýðræðisins þegar dóttir hans var barn að aldri. Undanfarna tvo áratugi hefur dóttirin leitt baráttuna fyrir lýðræði og gegn herforingjastjórninni í Búrma. Til þess hefur hún þurft að fórna frelsinu og samskiptum við fjölskyldu, eiginmann og syni sína frá unglingsárum þeirra.

Suu Kyi hafði snúið heim til Búrma vorið 1988,eftir háskólanám á Indlandi og Englandi og störf í Bandaríkjunum, til að hjúkra móður sinni. Fljótlega eftir heimkomuna varð hún sameiningartákn stjórnarandstöðunnar. Mótmæli gegn hinni illa þokkuðu herforingjastjórn höfðu þá farið vaxandi um hríð þrátt fyrir að stjórnin hikaði ekki við að beita grófasta ofbeldi gegn mótmælendum og hefði drepið þúsundir þeirra. Frá því snemma árs 1990 hefur Suu verið með hléum í stofufangelsi á heimili sínu. Mestan hluta vistarinnar hefur hún mátt þola nær algjöra einangrun, herforingjastjórnin hefur birt persónuleg bréf eiginmanns hennar í fjölmiðlum og þegar ljóst var árið 1999 að eiginmaður hennar ætti aðeins örfáar vikur ólifaðar vegna krabbameins meinuðu herforingjarnir honum að heimsækja konu sína í þeirri von að Suu myndi yfirgefa landið til að hitta hann.

Suu Kyi var gift breskum háskólamanni dr. Michael Aris og átti með honum heimili í Oxford. Sumarið 1990 var Jakob F. Ásgeirsson ásamt fjórum öðrum stúdentum við Oxford að leita að húsnæði til leigu og var vísað á heimili þeirra hjóna. Þar hittu þau eiginmanninn fyrir sem hafði fengið boð um að gerast gistiprófessor við Harvard.

Hann sagði okkur að eiginkona sín væri fangi herforingjastjórnarinnar í Búrma en hefði samt nýlega unnið glæsilegan sigur í frjálsum kosningum. Synir þeirra tveir væru á heimavistarskóla. Við fluttum inn í lok ágúst 1990. Það var augsýnilegt að dr. Aris tók það nærri sér að yfirgefa hús sitt. Það var leigt með öllu innbúi, nánast eins og eiginkona hans skildi við þegar örlögin gripu í taumana vorið 1988. Þau tvö ár sem við bjuggum í húsinu stóðu stígvél þeirra hjóna óhreyfð við útidyrnar – hennar gul, hans blá. Michael bað okkur um að leyfa þeim að vera þar sem táknrænni von um að einhvern tíma rynni upp sá dagur að heimilislífið færðist í eðlilegt horf á ný.

Michael dvaldist í risi hússins þegar hann var í Oxford og Jakob kynntist honum og baráttu eiginkonu hans því frá fyrstu hendi. Upp frá því hefur Jakob sýnt málstað Suu og lýðræðishreyfingarinnar í Búrma þá ræktarsemi sem hans er von og vísa.

Bók Jakobs um Suu Kyi prýða margar myndir. Þar er einnig að finna ritgerð Suu, Frelsi frá ótta og tímatal helstu viðburða í Búrma frá 1945. Bókin fæst í Bóksölu Andríkis á kr. 1.900 og er heimsending innanlands innifalin í því verði. Við sendingar til útlanda leggjast kr. 600.