Laugardagur 13. nóvember 2010

317. tbl. 14. árg.

V instri grænir hafa ekki enn haft tök á því að svíkja það stefnumál sitt að Ísland sé herlaust land. Gerviherstöð eða hersafn verður því að duga í bili á Miðnesheiðinni. Önnur stefnumál sín er varða samskipti Íslands við umheiminn hafa þeir svikið nema landbúnaðarráðherrann sem hefur náð að þrengja möguleikana á innflutningi osta svolítið.

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra er ekkert alltof ánægður með þessa stöðu og skýrir það í greininni „Matardiskur og flugmiði“ í Morgunblaðinu í dag.

Það varð síðan ofan á hjá okkur í VG í stjórnarmyndunarviðræðunum 2009 að freista þess að tala Samfylkinguna inn á að láta fara fram tvöfalda kosningu: Spyrja fyrst þjóðina hvort hún vildi sækja um og síðan aftur að loknum viðræðum ef það á annað borð hefði orðið ofan á að senda inn umsókn. Fyrir þessu talaði VG í aðdraganda stjórnarmyndunar.

Þessi nálgun hefði að sjálfsögðu verið rökréttasta og lýðræðislegasta nálgunin. En á þetta vildi Samfylkingin ekki fyrir nokkurn mun fallast og fór sem fór. Meirihluti Alþingis samþykkti að ganga til viðræðna við ESB – og leggja að þeim viðræðum loknum niðurstöðuna fyrir þjóðina til úrskurðar.

Líður nú tíminn. Viðræður hefjast með endalausum rýnihópum og kröfum um að við gerum eitt og síðan annað. Farið er að bera á okkur fé undir því yfirskini að þetta sé til að auðvelda gangverk samfélagsins og gera það skilvirkara og kröftugra. Það eigi að búa okkur sem best undir brúðkaupið; að við verðum fullstöðluð frammi fyrir altarinu þegar stóra stundin rennur upp.

Ekki er nóg með þetta. Sendiráð er nú opnað, endalausar sendinefndir koma og fara, Íslendingum er boðið í kynningar- og fræðsluferðir til Brussel, eflaust allt gríðarlega fróðlegt. Og viðurgjörningur eins og best verður á kosið. Það er fyrir löngu runnið upp fyrir mér að ESB vill Ísland. Það er búið að reikna út að við smellpössum inn í stórveldisdrauma gömlu nýlenduveldanna í Evrópu sem nú reyna að komast í endurnýjun lífdagana. Norðurslóðirnar eru nú komnar í sigti og gæti Ísland þar nýst vel.

En þá vakna erfiðar spurningar. Hvers má sín 300 þúsund manna þjóð gagnvart stórveldi með þykkt seðlaveski? Hversu lýðræðislegt er þetta tafl? Hvernig stendur á því að nánast alltaf í lýðræðislegum kosningum um sáttmála ESB – þar sem slíkar kosningar á annað borð hafa farið fram – er almenningur efasemdarfullur en stofnanaveldið, ríkisvald og sveitarstjórnarvald, fjölmiðlavaldið, atvinnurekendavaldið, verkalýðsvaldið – allt valdakerfið hliðhollt? Getur verið að þetta snúist meira en margur vill viðurkenna um matardisk og flugmiða?

Samfylkingin vildi ekki mynda ríkisstjórn með vinstri grænum nema það yrði örugglega ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sækja ætti um aðild að ESB. Enginn stjórnmálaflokkur hefur haft jafn hátt um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna og Samfylkingin. Hún fékk því kærkomið tækifæri til að standa við stóru orðin í stjórnarmyndunarviðræðum en vildi alls ekki. Annað tækifæri fékk hún svo í umræðum um aðildarumsóknina á Alþingi, þegar fram kom tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu, en afþakkaði. Að því ógleymdu hvernig hún lét þegar Ólafur Ragnar Grímsson sendi Icesave-ánauðina í þjóðaratkvæði.

Þjóðaratkvæðagreiðsluflokkurinn mikli vill bara alls ekki þjóðaratkvæðagreiðslur.