Föstudagur 12. nóvember 2010

316. tbl. 14. árg.

E inhver embættismaður ESB, þó ekki Stefán hressi stækkunarstjóri, kynnti í vikunni að sambandið hefði lokið einhverjum áfanganum í læknisskoðun og lúsarleit á landsmönnum. Ísland væri fyrirmyndarríki og hér þyrfti fáum reglum að breyta gerðist landið aðili að sambandinu nema hvað varðar sjávarútveg og náttúruvernd. Þetta kemur nokkuð á óvart því áður hefur því verið haldið fram að hér hafi engar reglur gilt um nokkurn skapaðan hlut, allra síst um fjármálastarfsemi. Nú segir hins vegar fulltrúi afkastamestu reglugerðafabrikku veraldarsögunnar að Ísland sé á pari við verksmiðjuna í þessum efnum. Um stöðu Íslands hvað varðar lög og reglur um fjármálamarkaði segir skýrslan:

Iceland is highly aligned and applies a substantial part of the acquis in this field due to its EEA membership.

Highly aligned, takk fyrir. Þótt minniháttar breytingar hafi verið gerðar á reglum um fjármálastarfsemi í júní á þessu ári má vera ljóst að Ísland hefur frá því það varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu búið að mestu leyti við sömu lög og reglur um fjármálastarfsemi og ríki Evrópusambandsins. Enda var Íslendingum það skylt samkvæmt EES samningunum að leiða reglur sambandsins á þessu sviði í lög.

Eina umkvörtunarefni sambandsins um fjármálastarfsemi er að, já einmitt, íslenska ríkið hafi ekki greitt hallann af viðskiptum einkabankans Landsbanka við sparifjáreigendur í Evrópu. Sem var þó aldrei ætlunin samkvæmt reglum sambandsins sjálfs um innstæðutryggingar heldur miklu frekar sérstaklega óheimilt vegna banns við ríkisstyrkjum til fjármálastarfsemi.

S tjórnarþingmaður lýsti því í gær, úr ræðustóli Alþingis, hvernig forsætisráðherra og flokksmenn hennar hefðu hótað „samstarfsmönnum“ sínum í ríkisstjórn ef þeir greiddu ekki atkvæði eins og forsætisráðherrann vildi, og það í máli þar sem sérstaklega er þó tekið fram í stjórnarsáttmála að hvor flokkur virði skoðanir hins. Meira að segja var ráðherra hótað.

Ríkisfjölmiðlarnir hafa lítinn áhuga á þessu máli. Hvernig halda menn að þeir hefðu látið ef slík frétt hefði komið upp þegar annar flokkur fór með forsætisráðuneytið? Þegar hvaða upphrópun stjórnarandstæðings var notuð til að reyna að sanna að í landinu væri ógnarstjórn, en því trúa sumir álitsgjafar enn eins og nýju neti.