Fimmtudagur 11. nóvember 2010

315. tbl. 14. árg.
Þau eru að gefa okkur skotleyfi á sig með því að vera dónaleg við okkur, en þau gleyma því að borgarstjóri er mesti grínisti Íslendinga. Hann fann upp uppistandið á Íslandi og þau ætla í grínkeppni við okkur með persónulegu níði. Við jörðum þau hvenær sem er – það er á hreinu. En það er alveg jafnmikið á hreinu að við viljum ekki fara þá leið.
– Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi varar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og VG við því að gera grín að skapara grínsins, Fréttatíminn 5. nóvember 2010.

T veir sveitarstjórnarmenn á miðjum aldri, Einar Örn Benediktsson og Jón Gnarr, kveinuðu undan því í viðtali við Fréttatímann í síðustu viku að þeim sé strítt af störfum sínum. Við höfum víst verið duglegir að vinna að fjárhagsáætlun borgarinnar, segja þeir sármóðgaðir. Andstæðingar okkar í sveitarstjórninni eru með svarta beltið í einelti, bæta þeir við. Þeir hafa verið dónalegir við okkur. Lesendur tárast með þeim félögum. Við fundum líka upp grínið á Íslandi svo það má ekki gera grín að okkur. Annars hefnum við okkar. Í lok viðtalsins lýsir Jón Gnarr því yfir að þeir séu pönkarar. „En við erum pönkarar og sem pönkarar setjum við okkur á háan hest, sem er hluti af pönki en það er ekki hroki.“

Nú er Vefþjóðviljinn ekki mikill sérfræðingur í pönki. En hvenær voru pönkarar í þægilegri innivinnu hjá hinu opinbera, nýhættir að reykja á Facebook, eyðandi deginum í mátun á bleikum jakkafötum, val á innréttingum og skrauti á skrifstofuna, húðflúr og bíla undir rassinn á sér? Hvenær var það pönk að ráða besta vin sinn, á kostnað almennings, til að sinna vinnunni sem maður var kjörinn til að sinna? Hvenær fóru pönkarar í fýlu yfir gagnrýni? Hvenær voru pönkarar vælandi valdamenn? Er það pönk þegar maður þarf að gefa um það yfirlýsingar í dagblöðum að maður sé nú assgoti mikill pönkari.

En þrátt fyrir allt vælið undan því að þeim sé strítt munu Jón Gnarr og félagar vera að senda frá kvikmynd þar sem því eru gerð skil hve aðrir stjórnmálamenn séu nú heimskir og leiðinlegir. Ef marka má þá búta sem sýndir hafa verið úr myndinni er mestu púðri er eytt á hinn umdeilda borgarfulltrúa vinstri grænna, Sóleyju Tómasdóttur. Nú er Vefþjóðviljinn líklega ekki sammála Sóleyju um nokkurn hlut og það eru 90% þjóðarinnar sjálfsagt ekki heldur svo það er án efa rétt metið hjá borgarstjóranum að hún liggi vel við höggi.

En hvað kalla valdamestu menn borgarinnar og mesti grínisti Íslendinga það þegar þeir framleiða kvikmynd til að hæðast að þeim stjórnmálamanni í landinu sem stendur hvað oftast ein með sannfæringu sína? Ef það er ofboðslegt einelti sem þeir verða sjálfir fyrir frá hinum landskunnu hrottum Júlíusi Vífli og Kjartani Magnússyni á borgarstjórnarfundum hvað heitir þá framkoma þeirra við Sóleyju Tómasdóttur?