Í
Þorsteinn Arnalds frambjóðandi til stjórnlagaþings. „Afleitt væri að eyðileggja stjórnarskrána, ofan á allt annað.“ |
hinu óvenjulega andrúmslofti undanfarinna missera létu þingmenn undan Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hafði bitið í sig að nú væri brýnast að endurskoða grundvallarlög ríkisins, sjálfa stjórnarskrána. Linnti hún ekki látum fyrr en samþykkt var að efna til sérstaks „stjórnlagaþings“ til þess verks, þar sem Jóhönnu og ýmsum álitsgjöfum líkar ekki að hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi hafi ekki uppfyllt allar dæguróskir þeirra um stjórnarskrárbreytingar. Það kalla þeir að stjórnarskrárgjafanum hafi „mistekist“.
Það er engin sérstök ástæða til að róta í stjórnarskránni og alls ekki við þær einstöku aðstæður sem nú eru uppi. Þá er aðferðin með miklum ólíkindum. „Þjóðfundurinn“ og „stjórnlagaþingið“, sem ríkisstjórnin tróð í gegnum þingið kosta stórfé sem ekki er til í ríkissjóði. Þar við bætist að samkvæmt lögum eru miklar skorður settar við möguleikum frambjóðenda til að kynna sig fyrir kjósendum, og blasir auðvitað við hversu vafasamt er að slík lagaákvæði standist.
En þótt stjórnlagaþingið sé fráleitt, tilefnið lítið sem ekkert, kostnaðurinn óheyrilegur og nær engar skynsamlegar hugmyndir hafi heyrst um stjórnarskrárbreytingar, þá breytir það ekki þeirri ömurlegu staðreynd að kosið verður til þessa þings nú í lok mánaðarins. Þá standa kjósendur frammi fyrir þeirri spurningu hvort þeir eiga að gera það sem flestum þykir auðvitað nærtækast, og láta sig fíflaganginn engu varða, eða eiga að reyna að taka til varna fyrir stjórnarskrána og það sem eftir er af hinu frjálsa og fullvalda Íslandi.
Í dag hafa birst auglýsingar frá frambjóðanda sem tekið hefur þann kost að taka til varna. Í auglýsingu sinni segir frambjóðandinn Þorsteinn Arnalds verkfræðingur: „Stjórnarskrá er alvörumál. Þar er skipað grundvallarlögum hvers ríkis, sem standa eiga óháð dægurhugmyndum, skyndilausnum og tískusveiflum. Stjórnarskrá skal örsjaldan breytt og aðeins eftir vandlega umhugsun og af fullri yfirvegun. Megininntak stjórnarskrár okkar er fjarri því að vera úrelt og skemmst er að minnast gagngerrar endurskoðunar mannréttindaákvæða hennar. Stjórnarskráin kom bankaþrotinu ekki við og hún stendur ekki í vegi uppbyggingar eftir það. Afleitt væri að eyðileggja stjórnarskrána, ofan á allt annað. Teikn eru á lofti um að sótt sé að fullveldinu og þess vegna eigi að gera breytingar á stjórnarskránni. Nú er því mikilvægast af öllu að staðinn verði traustur vörður um fullveldi landsins.“
Ekki þarf að koma á óvart þó að Vefþjóðviljinn taki undir þessi sjónarmið. Þorsteinn Arnalds er einn stofnenda Andríkis og hefur setið í ritstjórn þessa rits frá upphafi. Þeir sem kunna að telja eftirsóknarvert að sjónarmið Vefþjóðviljans heyrist á hinu fráleita stjórnlagaþingi, geta til þess kosið Þorstein Arnalds til þess hlutverks. Margur á minna erindi á kjörstað.