Helgarsprokið 17. október 2010

290. tbl. 14. árg.

Þ að er eiginlega fjarstæða að halda því fram að lántakendur á Íslandi hafi fyrir árið 2008 almennt gert ráð fyrir að hér yrði aðeins 2% verðbólga um aldur og ævi og aldrei kæmi verðbólguskot upp á tveggja stafa tölu. Þótt verðbólga hafi verið lægri hér undanfarin 20 ár en 20 árin þar á undan náðust svonefnd verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands ekki nema um nokkurra mánaða skeið.

Þessi fjarstæða virðist þó meginástæðan fyrir kröfu hóps manna sem þrýstir á ríkisvaldið að færa milljónir króna frá lánveitendum til lántakenda með svokallaðri skuldaleiðréttingu. Undanfarið hefur verið nefnt að lækka eigi allar verðtryggðar skuldbindingar um 18%. Raunar virðist þessum hópi saman hvaðan fjármunirnir komi sem færa á til lántakenda. Þeir beina kröfum sínum því meðal annars til ríkisvaldsins sem er ekki aðili að þessum lánasamningum nema í tilviki Íbúðalánasjóðs og Landsbankans. Er ekki nóg komið að reikningum til skattgreiðenda vegna mála sem engum datt í hug fyrr en eftir hrun að þeir ættu nokkra aðild að?

En eins og Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri rakti í grein í Morgunblaðinu 7. október eru til leiðir til að leysa þann hnút sem skuldbindingar margra heimila við lánastofnanir eru í.

1. Leyfið fólki að gera upp lán sín með húsum sínum og veðsettum eignum. Takið einnig við öðrum eignum ef þessar duga ekki til. Borgið þeim mismuninn, ef þær duga.
2. Látið það nægja. Afskrifið afganginn af skuldunum strax, ef einhverjar eru. Það þjónar ekki tilgangi eigenda ykkar að byggja upp uppvakningabanka (e. zombie banks) með uppvakningaviðskiptavini. Þá er skárra að taka tapinu strax og leysa fólk úr skuldaánauðinni.

3. Gerið langtímaleigusamninga við fyrrverandi eigendur (ef þeir vilja – einnig má bjóða þeim minni íbúðir í ykkar eigu á lægra leiguverði), svo þeir þurfi ekki að missa húsnæðið sitt. Það er offramboð af húsnæði í landinu. Þið verðið að leigja einhverjum. Betra þeim en engum.

Svona eignist þið fasteignirnar á vingjarnlegri hátt. Þið getið nú gert það sem þið viljið við þær, sett í sérstök félög, átt áfram eða selt fasteignirnar til fasteignafélaga. Samkeppni á leigumarkaði mun svo tryggja að jafnvægi finnist í leiguverði, þannig að megnið af fasteignum sé leigt út og sem flestir finni sér húsnæði.

4. Ef þið skapið viðskiptavinum ykkar svigrúm til að koma fótunum aftur undir sig geta þeir jafnvel sumir keypt fasteignirnar aftur til baka í framtíðinni. Í öllu falli kunna þeir að verða öruggari leigugreiðendur, sem eykur verðgild i fasteignafélaganna, sem þið getið svo selt.

5. Ef þið hafið áhyggjur af bókhaldslegum áhrifum þessa verðið þið að horfast í augu við það. Þið munuð trúlega ekki fá meira út úr þessum lánum en þetta. Endanleg niðurstaða verður trúlega hin sama. Þið munuð eignast fasteignirnar og leigja þær út. Betra er að láta þetta gerast á innan við ári en mörgum árum með tilheyrandi sársauka.

6. Eigið samstarf ykkar á milli um uppgjör á þessum nótum (fáið undanþágu hjá Samkeppniseftirlitinu ef þörf krefur) þannig að þið getið leyst úr vanda þeirra sem skulda mörgum bönkum á kerfisbundinn hátt, eftir rétthæð skulda.

7. Við þetta mætti bæta kauprétti til handa íbúendum eignarinnar sem nýta má innan 7 ára. Hann gæti t.d. verið á sama verði og höfuðstóll lánsins var. Þannig geta íbúendur haft hvata til að koma undir sig fótunum þannig að þeir geti eignast eignina aftur. Þetta veitir sennilega mörgum betri tilfinningu gagnvart stöðu sinni. Þeim finnst þeir eiga eitthvað í fasteigninni, sem er rétt í vissum skilningi. Ef fasteignaverð hækkar nóg næstu 7 árin, mun borga sig fyrir fólk að kaupa eignina að þeim tíma liðnum. Margir munu þá frekar vilja kaupa eigið húsnæði til baka en að flytja. Ef kauprétturinn er nýttur fær bankinn allan upprunalega höfuðstólinn til baka (en hann fékk leigutekjur í stað vaxtatekna fram að því).

Þessar ábendingar um hvernig leysa má vandamál einstaklinga hljóma miklu betur en sú skuldaleiðrétting á landsmönnum öllum sem farið er fram á þessa dagana og ríkisstjórnin hefur eytt öllum tíma sínum í að skoða að undanförnu.