Laugardagur 16. október 2010

289. tbl. 14. árg.
Það þarf að minnka ríkisbáknið. Að mínu mati voru stærstu mistök Sjálfstæðisflokksins í þau átján ár sem hann var við völd að láta vöxt opinbera kerfisins viðgangast. Hann átti að stinga við fæti og það átti að leggja meira fyrir. Ég tel að það eigi að skoða það að bakka með velferðarkerfið fjögur, fimm ár aftur í tímann, sjá hvað hver fékk þá, og spyrja hvort við höfum stofnað nýjar stofnanir sem hægt er að leggja niður.
– Pétur H. Blöndal alþingismaður í viðtali við Fréttablaðið í dag.

P étur H. Blöndal alþingismaður hefur lagt margt gott til í störfum sínum á Alþingi. Það er lítil breyting þar á í viðtali Fréttablaðið í dag. Þar viðurkennir Pétur fúslega að stærstu mistök Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratugum hafi verið að leyfa opinbera kerfinu að vaxa. Þetta hefur Vefþjóðviljinn sagt mörg hundruð sinnum, bæði fyrir og eftir hrun bankanna. Á sama tíma og það er mikilvægt að menn viðurkenni þetta í orði verða þingmenn flokksins að sýna þessa viðurkenningu í verki með málflutningi sínum á Alþingi. Þá gengur ekki að þingmenn flokksins hjóli í ríkisstjórnina fyrir tilraunir til að vinda ofan af útgjöldunum, líkt og Þorgerður K. Gunnarsdóttir gerði þegar spara átti eitthvað smáræði í gjöldum fæðingarorlofssjóðs. Og vel á minnst. Hvernig greiddi Pétur H. Blöndal atkvæði þegar Alþingi hafði árið 2000 þá tillögu – eða öllu heldur atlögu að skattgreiðendum – til umfjöllunar að Tryggingastofnun ríkisins myndi framvegis greiða fullfrísku fólki 80% launa í bætur fyrir að eignast barn? Gilti þá einu hvort um var að ræða verkamann með 150 þúsund í mánaðarlaun eða forstjóra með 5 milljónir. Verkamaðurinn fengi þá 120 þúsund á mánuði í fæðingarorlof en forstjórinn 4 milljónir. Þetta var svo kallað að jafna réttinn til fæðingarorlofs.

Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á þessari þróun er vissulega mikil en ekki óskipt. Hann var aldrei einn í stjórn og ekki með sinn hefðbundna styrk frá vorinu 2003. Það er til að mynda ekkert sem bendir til að 90% lánabrjálæði Íbúðalánasjóðs hefði nokkurn tímann orðið að veruleika án þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft vinstri flokk sér til aðstoðar. Sjálfstæðisflokkurinn veiktist talsvert í alþingiskosningunum vorið 2003 og fékk aðeins 33,7% fylgi, tapaði 8%. Framsóknarflokkurinn hélt sínum þingmannafjölda. Sjálfstæðisflokkurinn var því í mun lakari samningsstöðu þegar kom að stjórnarmyndun 2003 en 1999. Eins og menn muna sjálfsagt ekki þá gerði forysta Samfylkingarinnar þá tillögu til Framsóknarflokksins strax að loknum kosningum 2003 að Halldór Ásgrímsson yrði forsætisráðherra í stjórn Samfylkingar og Framsóknarflokks. Vafalaust hefur það verið í viðurkenningarskyni fyrir þátt Framsóknarflokksins í einkavæðingu bankanna sem Samfylkingin hefur ætíð dáðst að. Sjálfstæðisflokkurinn stóð því frammi fyrir því að þurfa að fallast á sumt af kröfum Framsóknarflokksins eða horfa á eftir honum fá öllu sínu framgengt í samstarfi við Samfylkinguna.