Mánudagur 18. október 2010

291. tbl. 14. árg.

R anghugmyndirnar og vitleysan sem dembt er yfir fólk dag eftir dag, á sér lítil takmörk. Þegar slíkt hefur verið tíðkað mánuðum, misserum og jafnvel árum saman, er ekki undarlegt þótt margir hafi látið undan og séu nú haldnir ýmissi þráhyggju um stöðu mála og ekki síður forsögu þeirra.

Í dag skrifar Guðmundur Andri Thorsson grein í Fréttablaðið, þar sem hann hefur árum saman verið fastur höfundur, með hléi þó. Og þar skortir nú ekki fullyrðingarnar frekar en venjulega. Að þessu sinni fjallar hann um ástandið áður en hin nær heilaga Eva Joly kom hingað í skrælingjalandið. Þá var ástandið þetta, að sögn Guðmundar Andra:

Grandalaus þjóð jafði verið blekkt og svívirt af glæpamönnum sem komust upp með gripdeildir sínar vegna þess að öfgamenn um eftirlitsleysi, bóluvöxt og einkavæðingu höfðu komist til valda, afnumið allt regluverk, blásið upp bóluna og afhent gripdeildarmönnum banka og fjármálastofnanir.

Svona var þetta nú bara, fullyrðir Guðmundur Andri Thorsson. Til valda höfðu komist „öfgamenn um eftirlitsleysi“, þeir höfðu „afnumið allt regluverk“ og „afhent gripdeildarmönnum banka og fjármálastofnanir“.

Ætli maðurinn trúi þessu sjálfur eða telji þetta bara fullgott handa lesendum sínum að trúa? Að hér hafi „allt regluverk“ verið „afnumið“. Að hér hafi ríkt „öfgamenn um eftirlitsleysi“? Staðreyndin er sú að eftirlit með fjármálafyrirtækjum var eflt jafnt og þétt árin fyrir bankahrun. Sérstök stofnun, Fjármálaeftirlitið, var stofnuð til að sinna þessu eftirliti, sem áður hafði verið sinnt innan seðlabankans, og fjárveitingar og mannafli Fjármálaeftirlitsins ruku upp frá ári til árs. Um fjármálamarkaðinn giltu ótal lög og reglur sem sífellt var reynt að auka og efla. Þegar Andríki tók sig til og auglýsti reglurnar sem giltu á fjármálamarkaði við bankaþrot, þá dugði varla heil síða í dagblaði til að telja þær allar upp, þótt notað væri stækkunarglersletur.

En svo kemur Guðmundur Andri Thorsson og fullyrðir við lesendur sína að hér hafi ríkt „öfgamenn um eftirlitsleysi“ og að þeir hafi „afnumið allt regluverk“.

Vitleysan í staðhæfingum Guðmundar Andra verður eiginlega ljósust þegar áfram er lesið í grein hans sjálfs. Þar fagnar hann því að embætti sérstaks saksóknara hafi eflst og að ástæða sé til að ætla að embættið nái árangri í starfi sínu.

En hvað er það embætti að rannsaka? Varla býst Guðmundur Andri við að það sé að rannsaka nein lögbrot, því hann er sjálfur búinn að fullyrða að hér hafi allt regluverk verið afnumið.

Það er svo merkilegt, að þrátt fyrir að álitsgjafar og aðrir „sérfræðingar“ hafi þusað og bloggað um það að hér hafi „engar reglur gilt“, þá starfar í landinu sérstakur saksóknari við að rannsaka og ákæra fyrir brot á reglunum, sem álitsgjafarnir telja að vísu að hafi ekki verið til. Álitsgjafarnir eru flestir mjög ákafir um að harðlega verði refsað fyrir brot á reglunum sem þeir halda sjálfir að ekki hafi gilt.