Mánudagur 27. september 2010

270. tbl. 14. árg.

Í síðustu viku kom úr hausthefti tímaritsins Þjóðmála, en það ágæta tímarit á fimm ára afmæli um þessar mundir. Það er ómetanlegt, í öllu því flóði þvættings og upphrópana sem hefur yfirtekið stóran hluta íslenskrar stjórnmálaumræðu, að fá fjórum sinnum á ári nýtt hefti þar sem fjallað er um stjórnmál og menningu af meiri þekkingu og skynsemi en víðast hvar annars staðar.

Undanfarin misseri hafa gapuxar og glópar farið mikinn í kenningasmíð um orsakir bankaþrotsins á Íslandi og kreppunnar sem fór um vestrænt hagkerfi á sama tíma. Fyrirferðarmikill sökudólgur í þeim kenningum hefur verið ógnvekjandi persóna, Nýfrjálshyggja að nafni, og er mjög fullyrt að það óféti hafi nú verið bæði prófað og afsannað í eitt skipti fyrir öll. Nýlega kom út bók sem var í titli sínum sérstaklega kynnt sem „Uppgjör við nýfrjálshyggjuna“, og skyldi henni þar ekki sýnd nein miskunn. Í nýjasta hefti Þjóðmála fjallar einn skýrasti hugsuður samtímans, Atli Harðarson heimspekingur og aðstoðarskólameistari, um þessa bók og þá einkum þær hugmyndir sem ritstjóri hennar, Kolbeinn Stefánsson, virðist gera sér um þessa nýfrjálshyggju. Færir Atli rök að því, að ekki sé trúlegt „að hægt sé að afmarka neina eina kenningu, skoðun eða hugmyndafræði þannig að að hún geti allt í senn talist frjálshyggjuættar, ríkjandi síðustu áratugi og þröngsýn kreddukenning eða algilt hugmyndakerfi.“

Af öðru efni í hausthefti Þjóðmála má nefna að Hjörtur J. Guðmundsson fer yfir afstöðu Sjálfstæðisflokksins og forystumanna hans til Evrópusamrunans, og horfir þá til tveggja áratuga; Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri, fjallar um það sem hann kallar „samsæri gegn upplognu samsæri“, og vísar þar til þess að því var logið upp að stjórnvöld hefðu staðið á bak við rannsóknir á stórfyrirtækinu Baugi, og síðan var efnt til baráttu gegn hinu upplogna samsæri. Þessu ekki óskylt er ýtarleg grein Björns Bjarnasonar um ris og fall Baugsmiðla en úr allt annarri átt kemur frásögn Guðna Th. Jóhannessonar af Gunnari Thoroddsen og námsárum hans í Berlín Hitlers.

Margt annað efni er í heftinu. Örvar Arnarson fjallar um afskipti ríkisins af vöxtum og sparnaði landsmanna og rekur meðal annars dæmi úr fundargerðum „peningamálastefnunefndar Seðlabankans“, Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður fjallar um þær árásir sem umburðarlyndir og víðsýnir prestar undir forystu Bjarna Karlssonar gerðu nýlega á sr. Geir Waage, en Bjarni krafðist þess að sr. Geir yrði sviptur kjól og kalli þar sem hann hefði lýst röngum skoðunum í viðtali.

Tímaritið Þjóðmál er ómissandi fyrir sérhvern frjálslyndan áhugamann um stjórnmál og menningu. Í Bóksölu Andríkis má kaupa bæði stök hefti og ársáskrift að tímaritinu.