Helgarsprokið 26. september 2010

269. tbl. 14. árg.

Í kjölfar hruns bankanna haustið 2008 urðu margir til að hrópa að hér hefði skort allar reglur um starfsemi þeirra, hér hefði verið einhvers konar frumskógarlögmál á fjármálamarkaði. Andríki tók sig því til í febrúar 2009 og birti í helstu dagblöðum lista yfir nöfn og númer þeirra lagaboða sem í gildi voru árið sem bankarnir hrundu og höfðu flestar verið um árabil þar á undan. Dugði ekki minna til en dagblaðsheilsíða með örletri til að koma ósköpunum fyrir. Það má vera hverjum manni ljóst að hér var miklu fremur reglugerðafrumskógur en frumskógarlögmál á fjármálamarkaði. Vefþjóðviljinn hefur stundum slegið því fram að ekkert viðskiptabrölt í veraldarsögunni hafi búið við jafn þétt ofið regluverk og fjármálamarkaðir Vesturlanda undanfarna áratugi. Er nokkuð sem bendir til annars? Það er sjálfsagt ekki til fullkominn mælikvarði á þetta en það væri óneitanlega gaman ef einhver tæki sig til og reyndi að búa slíkan kvarða til og bregða honum á fjármálamarkaði og aðrar greinar sem búa við mikið regluverk.

Það hefur ekki heyrst mikið af hrópum um regluleysið og frumskógarlögmálið eftir að auglýsingarnar birtust. Í staðinn hafa menn gert því skóna að jú reglur hafi kannski verið til staðar en þeim hafi ekki verið fylgt eftir því vondir nýfrjálshyggjumenn hafi verið andvígir eftirliti. Einu gildir þótt hér hafi verið stofnað sérstakt fjármálaeftirlit fyrir rúmum áratug og fjárheimildir þess auknar ár frá ári. Einu gildir þótt þetta eftirlit hafi verið sambærilegt og eftir sömu reglum og annar staðar á evrópska efnahagssvæðinu.

Einar K. Guðfinnsson alþingismaður vek einmitt að þessum eftirlitsmálunum í grein í Morgunblaðinu á fimmtudaginn var.

Nú hefur verið á því klifað að hér á landi hafi verið framfylgt tiltekinni stjórnmálastefnu sem hafi haft það beinlínis að markmiði að draga úr öllu eftirliti á fjármálamarkaðnum. Þennan málaflutning hefur mátt finna í fjölmiðlum og hann hefur ítrekað hrotið af vörum þingmanna í ræðustóli Alþingis. Út frá þessu hefur síðan verið lagt á þann veg að með þessu hafi vísvitandi verið opnuð leið fyrir þá sem starfað hafi á fjármálamarkaðnum til þess að haga sér nokkurn veginn að eigin vild. Og síðan hafa þeir hinir sömu fullyrt að hrun fjármálakerfisins hafi beinlínis verið afleiðing þessarar stefnumörkunar; sem raunar hefur stundum verið kölluð skítt og laggo-stefnan.

En er þetta svona? Er þetta raunveruleikinn? Var hér framkvæmd stjórnarstefna, sem beinlínis miðaði að því að draga úr eðlilegu eftirliti með því sem fram fór á fjármálamarkaðnum? Svarið er skýrt. Því fer víðs fjarri. Um leikreglur eftirlitsins og fjármögnun þess var nefnilega prýðileg sátt í samfélaginu og hún birtist í afstöðu alþingismanna á þessum tíma, án tillits til þess hvar þeir stóðu í pólitík. Þannig er mál með vexti að fjármálaeftirlitið hér á landi er fjármagnað með tekjustofni sem lagður er á fjármálafyrirtækin. Þetta er skattur og því þarf viðskiptaráðherra – nú efnahags- og viðskiptaráðherra – að leggja frumvarp fyrir Alþingi til þess að afla heimilda til þessarar skattlagningar. Ástæðan er einföld. Stjórnarskráin heimilar ekki öðrum en löggjafarvaldinu, Alþingi, að leggja á skatta. Það er í þessari lagasetningu sem stefnan er mótuð um umfang eftirlitsins og fjárhagslegan ramma sem því er ætlað. Hafi ágreiningur verið uppi í samfélaginu um þau mál, hefði hann vitaskuld komið fram í meðferð þessara þingmála. Og hvað segir sagan okkur um það?

Einar K. segir hann frá því er Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra lagði fram frumvarp sem markaði fjárhagsramma um fjármálaeftirlitið haustið 2006.

Umræður voru sáralitlar. Stóðu alls í korter og enginn þingmaður úr liði stjórnarandstæðinga, hvorki úr Samfylkingu né Vinstri grænum, tók til máls; aldrei nokkurn tímann. Samstaða varð um afgreiðslu málsins. Og í nefndaráliti stóð meðal þetta: „Starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja hefur aukist mikið á undanförnum árum. Á árinu 2005 stækkuðu íslensk fjármálafyrirtæki enn frekar og juku jafnframt hlutdeild starfsemi sinnar erlendis. Nefndin fagnar þessari þróun en telur jafnframt að í viðskiptalífinu verði að vera skýrar reglur svo þeir sem starfa á því sviði viti hvað er leyfilegt og hvað ekki.

Meðal nefndarmanna í viðskiptanefnd Alþingis sem skrifuðu undir þetta álit voru Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson. Að ári endurtók sagan sig en þá var Björgvin G. Sigurðsson orðinn viðskiptaráðherra.

Árið eftir fór á sömu leið. Þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, lagði fram frumvarp af sama tagi. Þingmenn ræddu það í stuttu máli. Hvergi vottaði fyrir ágreiningi um umfang og eðli fjármálaeftirlits. Menn fjölluðu helst um málefni sparisjóða, að gefnu tilteknu tilefni. Nefna má að Atli Gíslason, sem sat þann fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þegar málið var afgreitt, vekur athygli á því sem honum finnst óeðlilegt. Það er að Fjármálaeftirlitið fái mun meiri fjármuni til starfa sinna en Samkeppniseftirlitið og telur að þau hlutföll séu af allt öðrum toga á Norðurlöndum. Engar tillögur þarna frekar en fyrri daginn um að auka fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins. Menn voru býsna sáttir með umfang þess, enda hafði það vaxið gríðarlega á þensluárum fjármálamarkaðarins.

Tilraunir til sögufölsunar falla um koll Af þessu má sjá, að allt þetta sífellda sífur um að hér hafi átt sér stað meiri háttar átök um það hvort hafa ætti ærlegt eftirlit með fjármálafyrirtækjunum, er tóm þvæla. Það urðu engin slík átök. Hafi menn á Alþingi haft meiningar um að betur hefði þurft að gera við Fjármálaeftirlitið þá var það leikur einn að láta þann vilja sinn koma fram í breytingartillögum þegar málið kom á dagskrá Alþingis. Það var hins vegar aldrei gert. Þvert á allar flokkslínur fögnuðu menn auknum umsvifum fjármálamarkaðarins og þá sérstaklega útrásinni og kvittuðu upp á það fyrirkomulag á eftirlitinu sem hér viðgekkst á þessum tíma. Það átti í þessu tilviki ekki síður við um þingmenn þáverandi stjórnarandstöðu en aðra. Tilraunir þeirra til eftiráskýringa og sögufölsunar á þessu sviði falla því um koll. Í þessu máli geta þeir ekki skotið sér undan ábyrgð, þó viljinn til þess sé auðsær.

Þetta eru afskaplega upplýsandi skrif. Það eina sem má kannski bæta við þetta er að frá því Fjármálaeftirlitið var stofnað með lögum 1998 og fram að hruni bankanna heyrði það undir viðskiptaráðherra tveggja flokka, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Eru þeir sérstakir skítt- og laggo flokkar?