Þriðjudagur 28. september 2010

271. tbl. 14. árg.

E ins og flestir vita sendi sérstök þingnefnd, undir forystu Atla Gíslasonar, frá sér mikið álit á dögunum, ásamt því að leggja til að fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir fyrir landsdómi. Eins og skiljanlegt er, hafa ákærutillögurnar hlotið mesta athygli, en önnur afreksverk nefndarinnar ættu samt ekki að gleymast. Virðist raunar sem nefndin hafi hlaupið á sig frá upphafi til enda, en afurðir hennar virðast almennt vera ónothæft rugl, fullyrðingar út í loftið, ranghugmyndir og barnaskapur. Um mesta ruglið er svo auðvitað almenn samstaða meðal nefndarmanna, sem ekki kemur á óvart.

Það segir kannski talsverða sögu um nefndina, sem í orði kveðnu átti að fjalla með alvarlegum hætti um alvörumál, að hún fékk sér sérstaka ráðgjafa til að gera úttekt á „karlmennskuhugmyndum“ í tengslum við bankahrunið. Þessir ráðgjafar eru vitaskuld sérfræðingar í „kynjafræði“ og komast að þeirri niðurstöðu að „karlmennskuhugmyndir“ hafi einmitt átt þátt í að bankarnir hafi komist í þrot. Þess vegna sé „brýnt að ráðast í frekari rannsóknir á hlutverkaskiptingu kynjanna“, og þarf varla að efast um að þar geti margir faglegir kynjafræðingar unnið mikla rannsóknarvinnu.

Sérfræðingarnir, sem Atlanefndin fékk til liðs við sig í fullri alvöru, segja meðal annars, að „hin menningarlega ráðandi karlmennska [sé] ekki föst stærð heldur breytileg. Af því leiðir að sú tegund karlmennsku sem gerir ráð fyrir jafnræði milli kvenna og karla er því hugsanleg“, og er það væntanlega nokkur léttir fyrir fólk.

Í niðurstöðunum er vitanlega talið „mikilvægt að fram fari úttekt á störfum karla og kvenna heima við“ enda hafi „ekki farið fram ítarleg rannsókn á þátttöku kvenna og karla í heimilisstörfum og umönnun barna“.

Það, að Atlanefndin hafi í alvöru látið vinna þessa „sérfræðivinnu“, og kynni hana sem merkileg vísindi, segir meira en mörg orð um vitið í nefndinni og hversu nálægt nefndin er því að hitta nokkurn einasta nagla á höfuðið um bankaþrotið og orsakir þess.

EE inn þeirra ungu manna sem var bankastjóri á árunum fyrir hrunið gat sér einnig gott orð á þeim árum fyrir prjónaskap og fyrir að fara í fæðingarorlof. Ætli hann hafi hugsað mér sér þar sem hann sat með prjónana við vögguna að ef allt færi nú á versta veg í bankanum yrði karlmennsku hans kennt um?