Miðvikudagur 22. september 2010

265. tbl. 14. árg.

Í vikunni sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður „Hreyfingarinnar“, að þingmenn yrðu að hafa „hugrekki“ til að greiða atkvæði með tillögu hennar og annarra í meirihluta „Atlanefndar“ um ákærur á hendur ráðherrum. Hugrekkið fælist í því að fylgja álitsgjöfunum og athugasemdamönnum netsins, en huglausir væru þá væntanlega þeir sem ekki létu að þeirri stjórn.

Þingmenn „Hreyfingarinnar“ halda áfram yfirlýsingum og í gær sagði Margrét Tryggvadóttir að framganga Jóhönnu Sigurðardóttur væri „ógeðsleg“. Jóhanna hafði, eins og menn muna, gagnrýnt störf „Atlanefndar“ harðlega. Margrét sagði sérstaklega „ógeðslegt“ að Jóhanna kastaði rýrð á störf nefndarmanna.

Margrét Tryggvadóttir ætlar að ákæra annað fólk fyrir það hvernig það sinnti störfum sínum fyrir bankaþrot. Hún var kjörin á þing fyrir flokk sem stærði sig af því að hafa lamið sig inn á þing með óeirðum. En þegar „Hreyfingin“ á aðild að meirihluta þingnefndar, þá þykir Margréti Tryggvadóttur það hreinlega „ógeðslegt“ ef störf nefndarinnar eru gagnrýnd.

Sennilega finnst henni það álíka framkoma og ef þingmaður skrifaði bréf þess efnis að samþingmaður og flokksfélagi væri ekki heill á sönsum.

U mræðan um hvort ákæra eigi ráðherrana fjóra eða ekki, snýst mjög um aukaatriði og upphrópanir. Sumir virðast nefnilega halda að sú sé spurningin sem þurfi að svara: Á að ákæra ráðherrana?

En spurningin er ekki almenn um það hvort eigi að ákæra ráðherra. Ákærur eru ekki gefnar út almennt. Sumum finnst að ráðherrar hafi gersamlega klúðrað hlutunum og eigi allt illt skilið. En málið snýst ekkert um það. Í ákærudrögunum er Geir, Ingibjörgu Sólrúnu og þeim ekki gefið að sök að hafa verið lélegir leiðtogar, handbendi auðmanna, vitleysingar eða neitt slíkt sem oft er haldið fram að þau hafi verið. Í ákærudrögunum er þeim gerðar tilteknar sakir sem sagðar eru varða við tilteknar lagagreinar. Og um það á umræðan að snúast: Er hægt að sanna að þau hafi framið þá háttsemi sem þeim er gefið að sök og er ljóst að það hafi verið refsivert. Ef bæði svörin, ekki bara annað, eru að mati Alþingis jákvæð, þá getur það ákært en annars ekki.

Vefþjóðviljinn rakti í síðustu viku hvers vegna hann telur fráleitt að Alþingi samþykki ákærutillögur „Atlanefndar“. Hann hefur hvergi séð nokkurn mann færa haldbær rök fyrir annarri niðurstöðu, enda virðist enginn reyna það. Flestir láta sér nægja að fullyrða að það verði að ákæra. Hefur einhver heyrt eða séð einhvern sem reynir að halda því fram að ákærutillögur „Atlanefndar“ eigi sér raunverulega stoð? Að þar sé fjallað um raunverulega háttsemi sem hafi verið fólkinu refsiverð?

Þeir sem vilja af ákefð að ráðherrarnir fyrrverandi verði ákærðir, þeir ættu ekki að beina reiði sinni að þeim sem benda á haldleysi ákærudraganna. Þeir ættu frekar að beina sjónum sínum að þingnefndinni sem skilaði frá sér augsýnilega gagnslausum tillögum. Þeir sem skrifa oft á dag að nauðsynlegt sé að ákæra þetta fólk, hóta jafnvel byltingu og óeirðum ef sér verði ekki hlýtt – það ætti ekki að vefjast fyrir þeim að útskýra bæði brotin og refsiheimildina.

En þeir ættu jafnframt að búast við þeim viðbrögðum frá þeim sem nú telja sig vera í meirihluta, að öll gagnrýni á nefndarstarfið sé „ógeðsleg“.