Fimmtudagur 23. september 2010

266. tbl. 14. árg.

U mræðan um hugsanlegar ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum heldur áfram með sama hætti og áður. Í dag gerði Ríkissjónvarpið mikla frétt um að þótt ráðherrarnir hafi ekki getað komið í veg fyrir þrot bankanna hefðu þeir getað dregið úr tjóni ríkisins af því.

En eins og Vefþjóðviljinn hefur sagt, þá hlýtur umræðan um ákærur að snúast um þau ákærudrög sem liggja fyrir Alþingi, en ekki almennt tal um gagnsleysi eða ágæti ráðherranna fyrrverandi. Í ákærudrögunum eru ásakanir um vanhaldinn ríkisstjórnarfund, um að ekki hefði verið tekin saman „fagleg greining“ og að ráðherrarnir hafi ekki hrakið „einhvern“ bankann úr landi.

Umræðan fer oft á allt aðrar brautir. Ríkissjónvarpið fann í dag hagfræðing sem unnið hafði með Rannsóknarnefnd Alþingis og sagði hún að utanríkisráðherra hefði til dæmis getað haft samband við bresk yfirvöld og gætt þannig íslenskra hagsmuna. Þess vegna væri réttlætanlegt að ákæra utanríkisráðherrann fyrrverandi.

Kannski átti utanríkisráðherrann að gera eitthvað slíkt. Ráðherrann fyrrverandi er hins í ákærudrögunum alls ekki ákærður fyrir að vanrækja slíkt, þótt fréttamanninum hafi ekki þótt ástæða til að segja áhorfendum eða hagfræðingnum frá því. Ekki virtist fréttamaðurinn heldur hafa áhuga á því, að þessi athugasemd hagfræðingsins ætti þá ekki síður að snúa að þeim ráðherra sem gegndi störfum fyrir utanríkisráðherrann þegar bankarnir komust í þrot og reyndi á hugsanleg samskipti við Breta, en í ákærudrögunum er sá ráðherra hvergi nefndur, enda er hann enn ráðherra. Ákærudrög „Atlanefndar“ eru að mestu leyti hjal um atriði sem engu skiptu um bankahrun og tjón ríkisins, eða þá um skort á aðgerðum, sem ekki hefur verið sýnt fram á að hafi verið heimilar, hvað þá meira. Fáir reyna að minnsta kosti að rökstyðja að í ákærudrögunum sé ráðherrunum fjórum gefin að sök háttsemi sem þeim hafi í raun verið refsiverð.

En ríkið gerði margt umdeilanlegt í kringum bankaþrotið. Neyðarlögin svonefndu eru skýrt dæmi, en fyrir þau verður auðvitað ekki ákært, en enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn þeim. Neyðarlögin breyttu til dæmis röð þeirra sem áttu kröfu á bankana. Eflaust munu einhverjir, sem færðust aftar, láta reyna á rétt sinn vegna þeirra, og veit enginn enn hvaða áhrif slíkt hefði á ríkissjóð. Þá urðu neyðarlögn til þess að veð seðlabankans fyrir kröfum sínum færðust langt aftur fyrir það sem ella hefði orðið, og af þeirri ákvörðun Alþingis er sprottinn lunginn úr tjóni seðlabankans af bankaþrotinu, þótt þess sé aldrei getið í blogghrópum og alls ekki í fréttum Ríkissjónvarpsins.

Þegar bent er á, hversu fráleit ákærudrögin séu, þá er auðvitað ekki með því sagt að ráðherrar í ríkisstjórninni sem sat 2007 til 2009 hafi staðið sig vel. Það er einfaldlega sagt, að þeir sem vilja ákæra, þeir verða að benda á, nákvæmlega, hvaða háttsemi mönnum skal gefin að sök og hvar hún sé lýst refsiverð. Ef þeir geta þetta, og telja verður meiri líkur en minni á sakfellingu samkvæmt þessu, þá geta þeir ákært, en annars ekki. Það er það eina sem málið snýst um, en ekki upphrópanir um ekki neitt.

Í sama fréttatíma var sýnt er austfirskur bóndi bjargaði hreindýri sem hafði fest horn sín, og urðu af talsverð átök. Bóndinn heitir að sjálfsögðu Hjörtur.