L jósvakamiðlar eru fjölmiðlar hinna snöggsoðnu frétta þar sem hljóðnemi er rekinn framan í einhvern og orð hans eru klippt sundur svo úr verða fáar setningar sem þó vekja athygli. Þeir vilja stuttar fréttir með stórum orðum, fáar bakgrunnsupplýsingar og helst enga fyrirvara eða varfærni í fullyrðingum. Ljósvakamiðlar hafa mikinn áhuga á ásökunum, þær vekja athygli og stundum heitar tilfinningar, auk þess sem hressileg ásökun í dag getur tryggt frétt daginn eftir þar sem einhver mótmælir ásökuninni. Þriðja daginn má svo fá upprunalega ásakarann til að endurtaka sitt mál og bæta einhverju við. Ljósvakafréttamenn vilja helst aldrei „ljúka málinu“.
Sjaldan virðast fréttamennirnir sjálfir láta ásakarana standa fyrir máli sínu. Ef einhver segir annan hafa brugðist í einhverju máli, þá er sjaldan gengið eftir því hvað það hafi verið, nákvæmlega, sem hann átti að gera. Er þó augljóst, að varla er hægt að tala um að menn hafi brugðist nema að ljóst sé að þeir hafi bæði átt og mátt gera eitthvað annað en þeir gerðu.
Skýrt dæmi um gagnrýnisleysi fréttamanna við þessar aðstæður, birtist hvað eftir annað þegar bankaþrotið árið 2008 var rætt. Þá fylltust fjölmiðlar af mönnum sem gagnrýndu stjórnvöld harðlega þar sem á fjármálamarkaði hefðu ekki gilt lög og reglur. Fréttamenn höfðu sjaldnast fyrir því að kanna hvað væri nú til í þessum ásökunum, sem hefði þó verið fljótgert, því staðreyndin er sú að ótal lög og reglur giltu á íslenskum fjármálamarkaði og sérstök opinber stofnun hafði það verkefni að fylgjast með þeim markaði. En fréttamenn vanræktu ekki aðeins að kynna landsmönnum þær reglur sem giltu. Þeir slepptu því að spyrja gagnrýnendur nokkurra lykilspurninga. Ein hefði átt að vera: Hvaða regla, nákvæmlega, er það sem ekki gilti, en hefði breytt einhverju sem máli skipti á fjármálamarkaðnum? Og, fyrst þessi regla hefði gert gæfumun, var einhver sem lagði hana til, árin fyrir bankaþrot?
Þeir sem segja að „frjálshyggjan“ hafi eyðilagt lagaumhverfi á íslenskum fjármálamarkaði hafa sjaldnast fyrir því að benda á þá gagnlegu reglu sem „frjálshyggjan“ aflagði.