Helgarsprokið 12. september 2010

255. tbl. 14. árg.

Í vikunni fjallaði Vefþjóðviljinn um áform hins farsæla ráðherra, Árna Páls Árnasonar, að berjast gegn og banna starfsemi fyrirtækja sem bjóða fólki lítilsháttar peningalán til skamms tíma en gegn hærri vöxtum en gerast og ganga annars staðar. Algerlega óvænt var blaðið á móti þeim fyrirætlunum ráðherrans.

Auðvitað kom sú afstaða lesendum ekki í opna skjöldu. Vefþjóðviljinn er almennt á móti opinberri forræðishyggju, tilhneigingunni til að beita opinberu valdi til leggja daglegt líf venjulegs fólks að nauðsynjalausu undir skipulagsvald ráðamanna.

Ein forræðishyggja sem oft hefur verið nefnd hér, er ofstækið í tóbaksandstæðingum, en þeir láta sér sjaldnast nægja áróður og hvatningu heldur beita hinu opinbera miskunnarlítið til að ná fram markmiðum sínum. Þegar Vefþjóðviljinn gagnrýnir þessa þróun, sem birtist til dæmis í banni við því að eigendur veitingahúsa leyfi gestum sínum að reykja, fær blaðið undantekningarlaus bréf frá bálreiðum lesendum sem spara ekki stóryrðin.

En hvers vegna stendur hann öðru hverju í því að skaprauna þannig sínum ágætu lesendum, sem sjálfsagt eru óbrjálaðir í flestum öðrum málum? Það er vegna þess að það telur nauðsynlegt að berjast af einurð gegn forræðishyggjunni.

Hið opinbera sækir stöðugt á einstaklinginn. Sífellt er bætt við reglum sem einstaklingurinn þarf að fylgja og leyfum sem hann þarf að sækja um í sínu daglega lífi. Það sem hann þó má gera, má hann þakka fyrir að hið opinbera hafi ekki bannað eða að minnsta kosti skipulagt. Eflaust væri ýmislegt það, sem bannað er, óskynsamlegt. Það er sjálfsagt óskynsamlegt að aka án öryggisbeltis, reykja tíu vindla á dag, borða mikið smjör, horfa á heimskulega umræðuþætti í sjónvarpi, stunda hnefaleika án hjálms, láta pípulagningamann verja sig fyrir rétti, tæma rauðvínsflösku með hverjum kvöldverði, kvænast leiðinlegri konu, dansa nakinn uppi á borði og halda með Fylki. En að mega sjálfur taka ákvörðun um allt þetta og svo ótalmargt annað er hluti af því að lifa eigin lífi, eftir sínu eigin gildismati en ekki annarra og geta um síðir horft yfir farinn veg og vitað að sjálfur hafi maður tekið ýmsar þær ákvarðanir sem mestu skiptu, hvernig svo sem þær reyndust þegar á hólminn kom.

Forræðishyggjan sækir stöðugt á. Sjaldnar og sjaldnar er treyst á að fólk komi sér saman um hlutina, heldur vilja embættismenn knýja fram viðhorf sín og vilja. Þeir munu ekki hætta, ótilneyddir. Um leið og ein forræðishyggjan hefur verið knúin fram, þá er unnið að þeirri næstu. Heldur kannski einhver að tóbaksofstækismenn muni láta staðar numið við veitingahús í einkaeigu? Þeir eru nú þegar búnir að banna reykingar á sameiginlegu svæði fjöleignarhúsa, jafnvel þótt allir eigendur vilji reykja þar. Þeir eru búnir að banna starfsfólki að reykja á skrifstofu annarra starfsmanna, jafnvel þótt sá starfsmaður reyki þar sjálfur. Þannig er þetta á ótal sviðum daglegs lífs. Forræðishyggjumenn líta svo á, að þeir sjálfir viti hvað sé fólki fyrir bestu, hvað sé siðferðilega rétt, hvað aðrir geti í raun og veru viljað, og þeir beita opinberu valdi í sífellt vaxandi mæli. Það er gömul saga og ný að frelsið glatast sjaldnast allt í senn, en forræðishyggjumennirnir sneiða það af fólki, örþunna sneið eftir örþunna sneið. Þeir sem vilja vita hvernig slíkt endar, ættu að kaupa sér agúrku og prófa. Það er ákaflega mikilvægt að berjast gegn afskiptum hins opinbera af daglegu lífi og vali borgaranna, og þeirri baráttu verður haldið áfram, að minnsta kosti jafn lengi og hún verður leyfð. Þeir eru nú þegar búnir að banna fólki að svo mikið sem tala um einstakar tóbakstegundir nema í þeim sérstaka tilgangi að vara við þeim. Síðasta verk Rögnu Árnadóttur sem „mannréttindaráðherra“ var að hefja undirbúning að hertu banni við áfengisauglýsingum.En auðvitað er athafnafrelsið ekki ótakmarkað. Menn mega ekki brjóta rétt annarra. Og svo reykingadæmið sé notað, þá´mega menn ekki ryðjast inn í íbúð náungans og reykja þar pípu sína án leyfis. En fáist leyfið hjá húsráðanda gegnir að sjálfsögðu öðru máli. Og sama á að sjálfsögðu að gilda á veitingastaðnum. Þar á húsráðandi að setja húsreglurnar. Leyfi hann reykingar í húsi sínu, þá hafa þeir, sem fara inn á staðinn og vita af reglunni, auðvitað með því samþykkt að fá yfir sig reyk. Séu þeir ekki neyddir inn á staðinn, er þeim enginn óréttur gerður þótt einhver annar nýti sér leyfi húsráðandans og reyki þar vindil. Ef Kasper á veitingastað og vill leyfa Jesper að reykja þar inni, þá á Jónatan ekkert með að ryðjast þangað inn og heimta að Jesper drepi í. Ríkið ekki heldur.