Þriðjudagur 14. september 2010

257. tbl. 14. árg.

F jölmiðlar hafa margir gaman af uppnefnum, ekki síst ef þau eru þeim til einföldunar. Hrifnastir verða þeir þó, ef uppnefnin geta gagnast þeim í að bregða upp þeirri mynd sem þeir sjálfir vilja að festist á öðru fólki.

Þegar kratar unnu að hugðarefni sínu, „sameiningu vinstrimanna“, sem gekk út á að koma öllum vinstrimönnum undir kratastjórn, voru vinstrimenn Alþýðubandalagisins tregari í taumi en aðrir. Fjölmiðlamenn sem voru áhugasamir um málið tóku því ekki vel og uppnefndu þá gjarnan „talíbana“, og tóku kratar oft undir. Vinstri-vinstrimennirnir urðu auðvitað ekki ánægðir og Steingrímur J. Sigfússon einna síst.

Nú hafa mál hins vegar skipast svo, að krötum hefur næstum tekist ætlunarverk sitt. Að vísu varð verkfærið, hinn stóri sameinaði vinstriflokkur, aldrei smíðað, en engu að síður hefur nær alveg tekist að leggja íslenska vinstrimenn undir kratastjórn. Og svo furðulega vill til, að nú er það sjálfur Steingrímur J. Sigfússon sem berst harðlegast fyrir því að enginn vinstrimaður æmti undir kratastjórninni.

Enn eru þó eftir vinstrimenn sem ekki vilja gangast krötunum á hönd, að minnsta kosti ekki svo skömmu eftir kosningar þar sem þeir lofuðu allt öðru. Nokkrir þessara manna sitja á þingi fyrir vinstrigræna, og af og til heyrist í einum og einum í þeirra hópi sem dirfist að vilja fremur standa við eigin kosningaloforð en stefnuskrá kratanna. En fjölmiðlarnir eru komnir með nafn á hópinn. Nú heita þeir „órólega deildin“ enda líta fréttamenn svo á að annars vegar sé Steingrímur J. Sigfússon, nú hlýðinn fótgönguliði krata, og svo einhverjir órólegir menn sem ekki séu til friðs. Annars vegar rólegir og yfirvegaðir menn sem vinna sem einn að settu marki – þótt allt aðrir menn hafi að vísu sett það mark – og svo hins vegar óróleg deild sem auðvitað verði að róa, svo hið setta mark náist.

En sennilega hættir þessi nafngift fljótlega að heyrast. Ögmundur er kominn með ráðherrastólinn sinn, hann mun tryggja það að öll mál krata náist í gegn, en fær að greiða atkvæði samkvæmt eigin samvisku í þeim tilfellum sem tryggt er að málið náist í gegn án hans. Kratar hafa þá náð fullri stjórn á vinstrihreyfingunni á nýjan leik og þurftu ekki að greiða með öðru en ráðherrastóli Rögnu Árnadóttur. Hjá uppnefnurum heitir Órólega deildin nú Ódýra deildin, og hverfur sjónum á augabragði.