Helgarsprokið 29. ágúst 2010

241. tbl. 14. árg.

Þ að er kunnara en frá þurfi að segja að sumir iðnaðarmenn vinna ýmis verk sín án þess að skattyfirvöld séu ónáðuð með 25,5% virðisaukaskatti á greiðslu fyrir verkið og þaðan af síður 9% tryggingagjaldi eða allt að 47% tekjuskatti. Þetta á ekki síst við um ýmis viðvik fyrir einstaklinga á heimilum þeirra. Til að verðlauna þessa hegðun hefur hið opinbera stundum ákveðið að endurgreiða hluta virðisaukaskatts af vinnu manna í húsnæði verkkaupa. Oft hefur endurgreiðslan verið 60% en er nú 100%. Nú já þið skilið ekki skattinum, þá fellum við hann niður. Til viðbótar getur verkkaupi nú dregið verkkostnað frá tekjuskattsstofni sínum. Ofan í kaupið bjóða bankarnir sem eru ýmist undir stjórn ríkisins eða í eigu þess, nema hvort tveggja sér, lán á niðursettum vöxtum til að fjármagna framkvæmdir. Svo segja menn að afbrot borgi sig ekki.

Það er auðvitað fráleitt að verðlauna eina atvinnugrein með þessum hætti. Hvers vegna ekki bílaviðgerðir eins og húsaviðgerðir? Hvers vegna ekki líka viðhald á líkama og sál, hárgreiðslu, nudd, alls kyns námskeið eða nýtt hjónarúm? Hvers vegna er endurgreiddur virðisauka- og tekjuskattur af málun á vegg en ekki málverki á sama vegg?

Svo kynni einhver að benda á að þessar endurgreiðslur eru aðeins af „karllægum“ störfum; aðeins fyrir múrara, pípara og smiði en ekki hárgreiðslukonuna eða snyrtifræðinginn. En hér er auðvitað ríkisstjórn jafnréttis, jafnréttisstofa, jafnréttisráð, jafnréttisnefndir, jafnréttisfulltrúar og fjöldi með meistaragráðu frá fyrrverandi fjölbraut starfar við gerð jafnréttisáætlana hjá stofnunum og fyrirtækjum. Þar með hafa áhugamenn um jafnréttismál náð helstu markmiðum sínum.

Þótt hægt færi á stundum hafði á undanförnum áratugum tekist að einfalda skattkerfið nokkuð. Það átti þó til að mynda ekki við um vörugjalda- og tollakerfið sem er ekki aðeins óréttlátt á allan hátt heldur gjörsamlega óþolandi fyrir þá sem reyna fyrir sér með innflutning og ekki síður neytendur sem hafa ekki hugmynd um hvort skattar eru 7 eða 70% af vöruverði. En flestir hefðbundnir skattar höfðu verið einfaldaðir, undanþágum og þrepum fækkað. Flestir gátu nefnt þá skattprósentu sem þeir greiddu af tekjum sínum og höfðu sæmilega hugmynd um hvaða skattur af fjármagnstekjum biði við lok árs. Á rúmu ári hefur ríkisstjórn gegnsæis tekist að eyðileggja þennan árangur og rúmlega það. Tekjuskatt einstaklinga þarf helst að reikna út í þar til gerðum forritum í mörgum þrepum og búið er að flækja fjármagnstekjuskattinn með þrepum og undanþágum. Óþarft er að taka fram að allir hafa skattarnir verið snarhækkaðir. Og kjörtímabil velferðarstjórnarinnar er rétt að byrja.

Sér til halds og trausts í skattamálum fékk ríkisstjórnin ríkisskattstjóra áranna 1999 – 2006. Enginn hefur spurt um ábyrgð ríkisskattstjórans á árunum fyrir hrunið þótt mjög móðins sé að tala um að menn „axli ábyrgð“ sem gegndu ábyrgðarstöðum á þeim tíma, ekki síst í eftirlitsstofnunum eins og embætti ríkisskattstjóra. Indriði H. Þorláksson var frægur fyrir óbilgirni sína gagnvart almennum skattgreiðendum á Íslandi meðan hann var ríkisskattstjóri og skýrir það ef til vill hvers vegna öll veigameiri mál fóru framhjá honum. Hann var upptekinn við pizzur og konfektkassa á meðan skíðaskálar og einkaþotur fóru hjá. Á stundum mátti ætla að maðurinn hefði hreina óbeit á venjulegum íslenskum skattgreiðendum. Á því fékkst raunar staðfesting þegar hann átti stóran þátt í því að semja um að íslenskir skattgreiðendur tækju á sig allar skuldbindingar einkafyrirtækis í Bretlandi og Hollandi. Verður það lengi í minnum haft að velferðarstjórnin skyldi fá mann með slíkt hugarfar í þau mikilvægu störf. Indriði vildi að almennir skattgreiðendur greiddu skuldir sem mennirnir sem hann vanræktri að hafa auga með efndu til erlendis.