Laugardagur 28. ágúst 2010

240. tbl. 14. árg.

N ýlega seldi ríkisbankinn Landsbanki kippu fyrirtækja til fjárfestingafélags lífeyrissjóðanna. Óhætt er að segja að bankinn hafi haldið sumum fyrirtækjanna gangandi undanfarin tvö ár. Ef allt hefði farið hefðbundna leið við hrunið haustið 2008 hefðu einhver fyrirtækjanna án efa verið lögð niður, eignir þeirra seldar eða þau sameinuð öðrum fyrirtækjum í svipuðum rekstri. En íslenska ríkið ákvað að taka þau upp á arma sína í stað þess að láta tiltektina fara fram á markaðnum. Markaðurinn fékk ekki að gera það sem er þó nauðsynlegt að hann geri til að teljast markaður, hreinsa burt slæmar fjárfestingar. Þar með má segja að meini undanfarinna ára í atvinnulífinu, fjárfestingu á ónýtum grunni, hafi verið við haldið. Raunverulegir lánveitendur þessara fyrirtækja, kröfuhafar bankanna, voru jafnframt leystir undan ábyrgð sinni á þessum glórulausu lánveitingum til íslenskra fyrirtækja.

Flest þessara fyrirtækja eru í samkeppni við önnur fyrirtæki sem hafa þurft að standa þrengingar síðustu ára af sér með öðrum ráðum en ríkisstyrkjum. Hve sanngjarnt er það? Ljóst er að beinn kostnaður skattgreiðenda af þessu tiltæki er verulegur enda er það ein ástæða þess að ríkið lagði Landsbankanum til gríðarlegt fé. Bankinn sjálfur er auðvitað besta dæmið um að markaðurinn fékk ekki virka og skola burtu gjaldþrota rekstri. Í staðinn var ríkissjóður Íslands skuldsettur til að halda öllu gangandi.