Helgarsprokið 15. ágúst 2010

227. tbl. 14. árg.

N úverandi stjórnarflokkar náðu meirihluta á Alþingi við mjög sérstakar aðstæður vorið 2009. Áður höfðu þessir flokkar eða forverar þeirra ekki fengið slíkt fylgi meðal þjóðarinnar. Þegar kosningar  fóru fram vorið 2009 var stór hluti kjósenda felmtri sleginn eftir einstæða atburði í lýðveldissögunni haustið 2008. Fjármálakerfi landsins og gjaldmiðill hrundu, atvinnuleysi og óvissa tóku við. Hópur manna fór um með ofbeldi og eyðileggingu í miðbæ Reykjavíkur, ógnaði starfsfriði Alþingis og skelfdi þingmenn Samfylkingarinnar svo mjög að ríkisstjórn með mikinn þingmeirihluta hrökklaðist frá völdum, minnihlutastjórn vinstri flokkanna tók við og skömmu síðar var boðað til kosninga.

Það var mikið gert úr því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, með hinn mikla og nýlega þingmeirihluta sinn, hefði „misst umboð“ sitt við fjármálakreppuna haustið 2008. Ríkisstjórn Ísland var talin „umboðslaus“ eftir að fjármálakerfi landsins hafði farið sér að voða í félagi við fjármálakerfi fleiri landa og mikinn fjölda fjármálafyrirtækja um allan heim. Segja má að Samfylkingin hafi tekið undir þetta tal með því að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.

Vinstri flokkarnir fengu óvenju mikið fylgi í kosningunum vorið 2009. Flokkarnir sem lengstum sátu í ríkisstjórn áratugina fyrir hrunið fengu sína verstu kosningu.

En hvaða umboð hefur ríkisstjórn þá sem kemst til valda við svo óvenjulegar aðstæður sem vorið 2009? Hvaða umboð hefur slík stjórn sem hefur auk þess lítinn meirihluta á þinginu, var nýlega gjörsigruð í þjóðaratkvæðagreiðslu um helsta baráttumál sitt og virðist nú rúin trausti hins almenna manns?

Það má vera að slík stjórn hafi einhvers konar umboð til að raða sínu fólki á ríkisjötuna, gera fjárlögin kynjuð og til að hækka skatta á áfengi og tóbak, þótt Vefþjóðviljinn telji það síst smávægileg mál. Helst hefur slík stjórn þó umboð til að gera sitt besta til að draga úr verstu afleiðingum efnahagshrunsins. En fer vel á því að ríkisstjórn af þessum meiði ætli ekki aðeins að standa fyrir innlimum landsins í ríkjabandalag það sem hefur sýnt Íslendingum mikla óbilgirni að undanförnu heldur einnig henda stjórnarskrá lýðveldisins út í hafsauga?

Það hefur enginn fært rök fyrir því að stjórnarskráin tengist efnahagshruninu árið 2008 á nokkurn hátt. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mælti ekki fyrir um ódýra lánsféð úr stærstu seðlabönkum heimsins, ríkisknúnu fasteignabóluna í Bandaríkjunum eða óhófseyðslu flestra ríkisstjórna á Vesturlöndum um árabil.

Helsti rökstuðningurinn fyrir stjórnarskrárbreytingum virðist stundum vera sá að hér hafi lengi starfað stjórnarskrárnefndir sem ekki hafi komið með tillögur sem meiri sátt hefur verið um en stjórnarskrána eins og hún er. Það gæti þó ekki bara verið skynsamleg skýring á því?

Rætt var við Guðrúnu Pétursdóttur líffræðing og formann „stjórnlaganefndar“ í fréttum Ríkissjónvarpsins á föstudagkvöld. Líffræðingurinn var skipaður formaður stjórnlaganefndarinnar af þeim sem mest hafa krafist „faglegra“ vinnubragða í stjórnmálum og hlógu dátt að því að dýralæknir væri fjármálaráðherra.

Það er svo margt í stjórnarskránni okkar sem þarfnast lagfæringa. Ef maður les plaggið þá er það að mörgu leyti ekki mjög skiljanlegt og ekki mjög gegnsætt. Þannig að það er alveg ljóst að það er miðað við að færa hana til nútímahorfs, gera hana aðgengilega og skiljanlega hverjum sem er. Og það eru mörg ákvæði í henni sem tvímælalaust eiga ekki heima í nútímastjórnarskrá. Ég held að það plagg sem lítur dagsins ljós, þó að ég hafi ekki umboð til þess að setja það, og það eru mörg skref þangað til ég held að það verði ný stjórnarskrá sem er byggir á þeim grundvallargildum sem við náttúrulega þekkjum. Við ætlum ekki að bylta samfélaginu en við ætlum að setja stjórnarskrá sem getur enst inn í framtíðina.

Hvers vegna nefndi formaðurinn ekki dæmi um þau mörgu atriði í stjórnarskránni sem þarfnast lagfæringa? Eitt dæmi væri vel þegið. Hvað er það sem Guðrún Pétursdóttir skilur ekki í stjórnarskránni? Að hvaða leyti er hún ekki aðgengileg? Kannski vill hún bæta við stjórnarskrána heimild til að draga framboð til embættis forseta Íslands til baka eftir að framboðsfrestur rennur út og fjöldi manna hefur þegar greitt atkvæði utan kjörfundar.

Stjórnarskrá lýðveldisins er líklega aðgengilegasti og skýrasti lagabálkur Íslendinga. Það á einkum við þegar hún er borin saman við lög sem sett eru í seinni tíð og eru væntanlega „nútímalegri“. Þeir sem lýsa því yfir að þeir skilji ekki hina einföldu og aðgengilegu stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hljóta að eiga við verulega lestrarerfiðleika að etja. Auðvitað má finna þar atriði sem ýmsir og jafnvel margir eru ekki sáttir við. En það er staðreynd að lítið hafur verið deilt um stjórnarskrána á þeim sextíu og sex árum sem liðin eru síðan hún var samþykkt með 95% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kjörsókn var 98%.

Guðrún leggur áherslu á að stjórnarskráin verði „nútímaleg“. Engu að síður ætlar hún sér að setja stjórnarskrá sem „getur enst inn í framtíðina“. Hvers á nútíminn í framtíðinni að gjalda? Eftir tuttugu ár verður kominn nýr nútími og með snilldarrökum Guðrúnar verður allt hennar brölt í stjórnarskrámálum á árinu 2010 orðið gamaldags og óskiljanlegt líffræðingum með yfirburðaheyrn sem þá verða uppi.