Mánudagur 16. ágúst 2010

228. tbl. 14. árg.

Æ

Gylfi hefur enn hlutverki að gegna fyrir Steingrím. Dugar það?

tli þeir, sem láta nú eins og þá minni að ósanninda- og „afvegaleiðslu“mál Gylfa Magnússonar snúist um það eitt hvað hann sagði og hvað hann lét ósagt á Alþingi, hafi hreinlega ekki horft á Kastljós-viðtalið við hinn faglega ráðherra í síðustu viku? Ætli þeir hafi kannski gleymt frásögn Gylfa af leyniskjalinu, sem átti að hafa verið sent í ráðuneytið með því skilyrði að enginn fengi að sjá það nema óbreyttur starfsmaður, frásögn sem sendandinn kannast ekkert við, og er auk þess fráleit vitleysa, enda útilokað að skjöl í ráðuneyti geti verið trúnaðarmál gagnvart ráðherranum en ekki gagnvart óbreyttum undirmönnum hans? Halda þeir virkilega að nú sé aðalatriðið að finna einhverjar flóknar útskýringar á svari og svarleysi Gylfa við fyrirspurn á Alþingi?

En auðvitað kemur ekki á óvart að stjórnarherrarnir vilji ekki kasta Gylfa Magnússyni úr ríkisstjórninni núna. Hann hefur þar hlutverki að gegna, þótt það sé auðvitað ekki hlutverkið sem sagt er að hann gegni. Þess vegna reyna forystumenn ríkisstjórnarinnar, einkum þó Steingrímur J. Sigfússon, að halda Gylfa áfram í stjórninni.

Ef Gylfa Magnússyni yrði gert að taka pokann sinn úr viðskiptaráðuneytinu, stæði Steingrímur J. Sigfússon frammi fyrir auðum ráðherrastóli. Það vill hann ekki. Þá gæti hann til dæmis ekki lengur vikið sér undan að upplýsa hvort Ögmundur Jónasson fær að verða ráðherra aftur, eða ekki. Við núverandi aðstæður er sífellt hægt að gefa í skyn við óbreytta þingmenn, ekki aðeins Ögmund heldur marga aðra í senn, að alveg rétt bráðum losni ráðherrastóll, svo nú gildi fyrir alla að vera þolinmóður, styðja stjórnina áfram og greiða enn og aftur atkvæði gegn stefnu, loforðum og eigin sannfæringu, því nú sé alveg að koma að því að því að ópólitísku ráðherrunum verði skipt út.

En ef Gylfi fer núna, og þá Ragna Árnadóttir með honum, þótt hún sé raunar ekki ráðherra heldur starfsmaður sem engu reynir að ráða, þá er þessi gulrót úr sögunni. Þá vita þeir, sem ekki fá ráðherrastól, að sá draumur rætist ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar, og varla nokkurn tíma ef stjórninni verður leyft að eyða trúverðugleika stjórnarflokkanna með öllu. Steingrímur J. Sigfússon er ekki fæddur í gær, og vill því láta Gylfa Magnússon valda ráðherrastólinn eins lengi og hægt er, svo ráðherradraumamenn láti aðeins lengur að stjórn.

Tvennt annað mælir auðvitað með því að Steingrímur reyni að halda Gylfa inni, þótt erfitt sé. Þau Gylfi og Ragna hafa auðvitað það hlutverk í stjórninni að verða kennt um, ef mikil reiði brýst út í þeirra málaflokkum. Ef endurreisn bankanna mistekst eða veldur ríkinu gríðarlegu fjárhagstjóni, og ef uppi verður mikil óánægja með saksókn á hendur eigendum og stjórnendum fallinna stórfyrirtækja, þá vilja stjórnarflokkarnir ekki bera ábyrgð á þeim málaflokkum. Þá kemur sér vel að hafa þar „fagmenn“ sem enginn ber ábyrgð á í kosningum.

Svo er auðvitað ákveðinn hópur sem vill ekki að Gylfi Magnússon víki. Það eru þeir léttavigtarþingmenn stjórnarflokkanna sem eiga enga möguleika á því að verða ráðherrar sjálfir. Þeir vilja ekki að einhver annar í þingflokknum nái ráðherrasæti og verði þannig hættulegri keppinautur í prófkjöri. Slíkir þingmenn munu tala mjög gegn afsögn Gylfa Magnússonar.

Auðvitað er ekki víst að þetta dugi til að halda Gylfa Magnússyni á floti til lengdar. En það má reyna.