Laugardagur 14. ágúst 2010

226. tbl. 14. árg.

Í dag er síðasti dagur afmælistilboðs Bóksölu Andríkis. Hver sem pantar eina bók eða fleiri í Bóksölu Andríkis fær í kaupbæti eins árs kynningaráskrift að tímaritinu Þjóðmálum, sé hann ekki þegar áskrifandi. Þetta er tilboð sem í að minnsta kosti þremur atriðum sker sig frá ráðherradómi Gylfa Magnússonar: Það rennur út í dag, það hefur þegar komið töluverðu til leiðar, og það er ekki útilokað að það verði einhvern tímann endurtekið.

F yrr í þessari viku fjallaði Vefþjóðviljinn um uppvakningu eignaskatts, sem lagður var á undir lýðskrumsheitinu „auðlegðarskattur“. Sagði blaðið menn geta velt fyrir sér hvort núverandi ríkisstjórn væri líklegri til að hækka skattinn eða lækka á næstu árum. Það þurfti ekki að velta því lengi fyrir sér. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins vinnur „starfshópur fjármálaráðherra“ nú að tillögum um hækkun ýmissa skatta, til viðbótar við hækkanir síðasta árs. Vinstristjórn var kosin yfir landið í fyrra, í kjölfar uppþota og stjórnarskipta með afar vafasömum aðferðum, og þetta er auðvitað það sem búast mátti við.

Væntanlega eru þeir ánægðir, allir þeir sem í síðustu kosningum skiluðu auðu eða mættu ekki á kjörstað, þrátt fyrir yfirvofandi fjögurra ára vinstristjórn.