Föstudagur 13. ágúst 2010

225. tbl. 14. árg.

Á síðasta ári var vakin athygli á því, að svo virtist sem Gylfi Magnússon, hinn faglegi viðskiptaráðherra, hefði farið með hrein ósannindi í opinberri yfirlýsingu. Ekki höfðu aðrir fjölmiðlar mikinn áhuga á þessu máli, sem fyrst hafði verið hreyft í fjölmiðlapistli Andrésar Magnússonar í Viðskiptablaðinu. En nú er hins vegar svo komið að fjölmiðlamenn geta vart lokað augum og eyrum fyrir ósannindum þessa sérstaka ráðherra, þótt líklega muni þeir álitsgjafar, sem mest hafa talað um „faglega ráðherra“ reyna að sofa áfram.

Meðal þess sem Gylfi Magnússon hefur borið á borð fyrir landsmenn síðustu daga, er að í ráðuneyti hans hafi komið skjal og álitsgerð úr seðlabankanum, sem sér hafi ekki verið sýnt þar sem það hafi verið sent í ráðuneytið sem trúnaðarskjal sem aðeins mætti koma þar fyrir augu eins starfsmanns. Seðlabankinn hefur raunar rekið þessi ósannindi ofan í Gylfa, en benda má á eitt augljóst atriði í þessu samhengi: Ráðuneyti er í raun aðeins skrifstofa ráðherra. Allt sem embættismenn gera er gert í nafni ráðherrans. Öll þeirra störf eru unnin „fyrir hönd ráðherra“. Það er lögfræðilega útilokað að senda skjal í ráðuneyti þannig að það sé trúnaðarmál sem ráðherra megi ekki sjá. Embættismaður sem samþykkti slíkt gæti aldrei starfað í ráðuneyti. Yrði starfsmanni á svo ótrúleg yfirsjón, þá gæti hann vart starfað þar lengur, og því síður sem skjalið væri mikilvægara.

Ef að það er nú satt og rétt hjá Gylfa Magnússyni, að lögfræðingur í ráðuneyti hans hafi tekið við skjali, með þeim skilyrðum að ráðherrann mætti ekki sjá skjalið heldur aðeins þessi eini undirmaður hans, þá vaknar spurning um það hvaða agaviðurlögum Gylfi hefur beitt starfsmanninn. Ráðherra hlyti að minnsta kosti að áminna slíkan starfsmann. Hefur það verið gert? Og þegar skjalið varðar það efni sem hér á í hlut, og ráðherra hefur auk þess fjallað um á alþingi á gagnstæðan hátt við það sem stendur í skjalinu – og þá án þess að starfsmaðurinn hafi vakið athygli á skjalinu, ef saga Gylfa er rétt – þá verður málið enn stærra.

Ef saga Gylfa Magnússonar er nú sönn, ætlar hann þá að láta þetta viðgangast? Hvaða ástæða er nú líklegust fyrir því, ef Gylfi áminnir ekki starfsmanninn eða beitir öðrum viðurlögum?
Og raunar hefur starfsmaðurinn bitið hausinn af skömminni, ef frásögn Gylfa er rétt. Hann hefur nefnilega sagt frá því opinberlega að hann hafi komið skjalinu áfram til yfirstjórnar, og þar með blásið á tal ráðherrans um að það hafi verið trúnaðarmál. Það gerir brot hans enn alvarlegra – ef frásögn Gylfa er rétt.

Hvað gerir Gylfi?