Þ að væri hægt að bæta lífskjör Íslendinga mjög með því að fella niður alla innflutningsskatta, tolla og vörugjöld, og aðrar innflutningstakmarkanir. Þessar hindranir eru sjálfskaparvíti. Þær eru að mestu settar upp af Íslendingum sjálfum og því geta Íslendingar sjálfir rifið þær niður, einir og óstuddir.
Í verslun í Reykjavík í dag var seldur síðasti bitinn af Manchego osti þar til næsta tollkvótauppboð fer fram. Verðið var 6.900 kr./kg. Ríkið hefur búið til ótrúlega flókið kerfi uppboða, kvóta og skammtana í kringum innflutning á landbúnaðarvörum eins og osti. Þetta er svo flókið og vitlaust kerfi að almenningur á í raun enga möguleika á að kynna sér hvað þarna er í gangi. Örfáar verslanir og innflytjendur eyða ótrúlegum tíma og fjármunum í að kljást við þetta kerfi.
Um þessar mundir er svo verið að festa í sessi bann við því að menn tappi mjólk af beljunni sinni nema menn kaupi til þess leyfi af einhverjum öðrum beljueiganda sem missir þá leyfið til að mjólka. Vefþjóðviljinn spyr nú bara hvort það standist stjórnarskrá lýðveldisins að banna mönnum að hagnýta eignir sínar á þennan hátt. Hvaða vörn er af eignarréttar- og atvinnufrelsisgreinum stjórnarskrárinnar ef hægt er að banna mönnum annað eins? Hvað er þá ekki hægt að banna?
Það gerir auðvitað enginn þá kröfu til núverandi stjórnarflokka að þeir afnemi höft og skömmtunarkerfi. Höft eru ær og kýr vinstri flokka. Hins vegar má gjarnan gera þá kröfu til stjórnmálaflokks sem kennir sig við atvinnufrelsi og einkaframtak að hann sé ekki eins og lufsa í þessu máli og þurfi að halda þingflokksfundi til að þingmenn hans geti leitað að skoðunum sínum.