Miðvikudagur 21. júlí 2010

202. tbl. 14. árg.

R íkisútvarpið hefur undanfarið endurflutt þáttaröð um farandverkafólk í íslenskum sjávarútvegi,. Í síðasta þætti var meðal annars talað við Þorlák Morthens, Tolla, sem á sínum tíma var mikill baráttumaður farandverkamanna.

Margt í máli hans, þegar hann lýsir baráttuaðferðunum sem beitt var, má vera umhugsunarvekjandi í dag:

Við skipulögðum okkur dálítið meðvitað, reyndum að hafa þetta dálítið lokað, af því að við vorum með skilgreind markmið og leiðir í hvað við vildum gera en fundum það að ef við opnuðum hreyfinguna algjörlega upp á gátt sem lýðræðislega fjöldahreyfingu þá tók það svo út slagkraftinn, þetta varð svo þungt í vöfum, menn voru farnir að sko þú varst farinn að hérna eyða rosalegum kröftum bara í það að lifa af sem hreyfing sko. Þannig að við vorum dálítið svona lúmskir, við vorum dálítið lúmsk í þessu, að halda þessu dálítið sem bara næstum því eins og klíku sko. Sko okkar leið í þessu sko var fyrst og fremst að berjast innan verkalýðshreyfingarinnar, innan bírókratíunnar með stuðning frá fjölmiðlum þannig að við spiluðum, við notuðum fjölmiðlana til að pressa á stjórnmálamenn og verkalýðshreyfinguna. Og þegar maður var kominn í þá stöðu þá þurfti maður ekki fjöldahreyfingu til að bakka það upp.

Hvernig berjast menn ekki í dag? Eru fréttamenn ekki sífellt að þylja upp ályktanir einhverra hagsmunasamtaka, sem oft virðast bara vera einhverjir örfáir menn. Sum samtök, sem þó eiga greiða leið í fréttatímana, virðast bara hafa einn talsmann og aldrei hefur komið fram hvort aðrir og þá hverjir eru með honum í félaginu, hversu lengi „félagið“ hefur starfað.

Þeir sem þekkja til á fjölmiðlum, þeir sem kunna á þá sem þar starfa, eða starfa jafnvel þar sjálfir, hafa ótrúlega aðstöðu til að tala áhugamál sín áfram. Á síðustu tímum, þegar yfirmenn opinberra fjölmiðla virðast skyndilega hafa gefist upp á að reyna að halda starfsmönnum sínum að lögskipuðum hlutleysisreglum, eykst enn hættan á misnotkun fjölmiðlanna, hvort sem hún verður af athugunarleysi eða ásetningi fjölmiðlamannanna sjálfra.