Þriðjudagur 20. júlí 2010

201. tbl. 14. árg.

O líufélaginu BP hefur gengið erfiðlega að loka borholu á 1.500 m dýpi 60 km frá ströndum Louisiana. Mikil olía hefur streymt í sjóinn. Terry Anderson hjá PERC velti því fyrir sér í grein í The Wall Street Journal nýlega hvernig standi á því að menn bori við svo erfiðar aðstæður þegar nóg er af þurru landi í Bandaríkjunum þar sem talið er að finna megi mikið magn olíu.

Skýringin er sú að land í einkaeign er að miklu leyti þurrausið olíu. Það er hins vegar nóg af landsvæðum í opinberri eigu þar sem líklegt er að olía finnist. Dæmi um það eru náttúruverndarsvæði í Alaska (ANWAR) þar sem áætlað er að ná mætti 750 þúsund tunnum af olíu á dag. Það mætir hins vegar mikilli andstöðu að nýta þau svæði. Bæði eiga náttúruverndarsamtök hlut að máli en ekki síður stjórnmálamenn sem láta undan þrýstingi þeirra og annarra sem þola ekki starfsemi eins og olíuiðnað í nágrenni sínu.

Anderson bendir á að með þessu takmörkunum á nýtingu á opinberu landi sé mönnum beint út í hafsauga, á svæði sem eru hættulegri á allan hátt. Þannig hafi orðið 102 sprengingar í olíu- og gaslindum í Texas frá árinu 2006 án þess að meiriháttar mengun hafi hlotist af.

Hann segir að það sé hægt að taka mun meira tillit til náttúrunnar við olíuborun á landi en á sjó. Þannig hafi fuglaverndunarsamtökin Audubon Society leyft olíuvinnslu á landi í einkaeign sem þau hafa umsjón með. Þau hafi gert það með ströngum skilyrðum svo ró fuglalífs yrði ekki raskað.

Ógæfan úti fyrir ströndum Louisiana er því ef til vill enn eitt dæmið um að boð og bönn í umhverfismálum hafa öfug áhrif við það sem þeim er ætlað, rétt eins og á öðrum sviðum.