Fimmtudagur 22. júlí 2010

203. tbl. 14. árg.

Á dögunum var verið að sýta það í einhverjum fréttatímanum að nú fengju foreldrar aðeins 300 þúsund krónur á mánuði í bætur frá hinu opinbera þá mánuði sem þeir eru frá vinnu vegna eigin ungviðis. Hinar geggjuðu breytingar á fæðingarorlofi árið 2000 eru ein ástæða þess að ríkissjóður er rekinn með dúndrandi halla og skuldir hrannast upp. Börnin sem eru með foreldra á bótum við að hugsa um sig fá því að reikninginn þegar fram líða stundir. Hagmunir barnsins ganga fyrir.

Í fréttinni var rætt við ungan mann í fæðingarorlofi. Hann ætlaði ´nú ekki að láta það buga sig þótt bæturnar hefðu verið skertar örlítið. Hann bætti svo við að það væri alveg dásamlegt að vera með barninu og honum væri hugsað til forfeðra sinna sem hefðu nú ekki notið þeirrar gæfu að kynnast börnum sínum.

Ætli stór hluti Íslendinga frá landnámi fram á þennan dag myndi kannast við þessa lýsingu? Ætli menn hafi ekki kynnst börnum sínum í bændasamfélaginu? Ætli bændur hafi almennt náð að einangra sig frá börnum sínum í baðstofunum? Kannski voru lokrekkjurnar til þess ætlaðar ef þær voru þá fleiri en ein. Ætli það sé ekki nær lagi að stór hluti Íslendinga hafi í æsku verið með foreldrum sínum og jafnvel fleiri forfeðrum allan sólarhringinn allan ársins hring?