Miðvikudagur 14. júlí 2010

195. tbl. 14. árg.

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála er meðal annars fjallað um tvær bækur sem til sölu eru í Bóksölu Andríkis. Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur fjallar um bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, og segir Heiðar að þar fáist „loksins vitræn umfjöllun um skatta“. Bókin sé „sérstaklega vel skrifuð og auðlesin, jafn leikum sem lærðum og framsetning efnisins [sé] skýr. Auðvelt væri að gera bók um skattamál of tæknilega og hreint út sagt leiðinlega. Það [eigi] alls ekki við um þessa bók.

Heiðar segir að bókin sé ætluð íslenskum lesendum og sé því fjallað töluvert um þá „ótrúlega villandi“ umræðu sem orðið hafi á Íslandi um fátækt og skatta í framhaldi af útgáfu rita Hörpu Njálsdóttur og Stefáns Ólafssonar. Segir Heiðar að sláandi sé hversu frjálslega sé farið með tölur í ritum þeirra Hörpu og Stefáns.

Heiðar segir að í bókinni séu útskýringar um eðli fjármagnstekjuskatta og virk áhrif skatta, sem séu miklu hærri en flestir haldi, og séu þær mjög gagnlegar þeim lesendum sem ekki hafi kynnt sér skattamál sérstaklega. Dómur Heiðars er á eina lund, hann telur bókina augljóslega bæta úr brýnni þörf. Og hann spyr:

Hvers vegna þykir í kennsluskrá grunnskóla og framhaldsskóla sjálfsagt að kenna nemendum að jörðin sé ekki miðja sólkerfisins, heldur sólin, sem er nokkuð sem engu barni myndi detta í hug af sjálfsdáðum, en láta hjá líða að kenna einföldustu grunnkenningar í hagfræði? Það er ljóst að fleiri nemendur munu í framtíðinni taka þátt í hagkerfinu en ferðast um sólkerfið en samt er það svo að lítil rækt er lögð við að búa fólk undir þátttökuna.

Þá fjallar Sigríður Snævarr sendiherra um bók Jakobs F. Ásgeirssonar um baráttukonuna Aung San Suu Kyi og erfiða baráttu hennar fyrir lýðræði í Búrma. Sú bók veitir mjög fróðlega innsýn í mál sem fáir Vesturlandabúar þekkja að gagni, en Suu hefur nú verið í stofufangelsi meira og minna í tuttugu ár. Höfundur bókarinnar hefur komist í svolítil kynni af þeirri baráttu, en á námsárum sínum í Oxford átti hann heima á ensku heimili Suu, kynntist eiginmanni hennar vel og fór meðal annars í hans erindum að hljóðrita blaðamannafundi herforingjastjórnarinnar, þegar þeir voru haldnir í Lundúnum. Sigríður segir:

Mjög vel hefur tekist til við ritun bókarinnar sem skrifuð er á góðu máli. Hið persónulega innvaf fellur vel að ævisöguáhuga lesandans, sem ósjálfrátt setur sig í spor sögumanns og fer að spyrja sig sömu spurninga og hann. Þegar höfundur upplýsir að Búrma sé auðugasta land Asíu að náttúruauðlindum, en engu að síður eitt tíu fátækustu landa heims, þá fæst enn staðfest hversu dýrmætt lýðræðið er og góðir stjórnarhættir. Höfundur vinnur markvisst að því að vekja og viðhalda áhuga lesandans og er bókinni skipt upp í 35 kafla með lýsandi og áhugaverðum kaflaheitum. … Ævisaga Suu er með hreinum ólíkindum, svo mjög að hætt er við því að örlög hennar þvælist fyrir einstökum og merkum boðskap hennar. … Bókn er að mínu mati fjórþætt. Hún segir ævisöguna sem hér hefur verið tæpt á. Þá gefur hún mynd af stjórnmálaþróun í Búrma, lýsir harðræði hinnar andlitslausu herforingjastjórnar og illri meðferð þeirra á fólkinu og landinu. Í þriðja lagi segir hún söguna um máttleysi alþjóðasamfélagsins og hve lítils það má sín með öllum sínum Nóbelsverðlaunum og ályktunum alþjóðastofnana. Kjarni málsins er engu að síður hið síðasttalda: leiðtogahæfni Suu.