Þriðjudagur 13. júlí 2010

194. tbl. 14. árg.
Hvers vegna er þörf álagsprófi fyrir fjármálastofnanir í Evrópu nú þegar tvö ár eru frá því fjármálakreppan skall á? Einfaldlega vegna þess að fram að þessu hefur vandamálum evrópskra banka verið sópað undir teppið, ofið úr ríkisábyrgðum.
– Daniel Gros framkvæmdastjóri Center for European Policy Studies í grein í The Wall Street Journal 9. júlí 2010.

D aniel Gros segir að evrópskir bankar, ekki síst þeir á evrusvæðinu, séu vanfjármagnaðir en alltof tengdir. Því geti þrot eins banka haft mikil áhrif á allt fjármálakerfi álfunnar.

Evrópusambandið ætlar að láta fjármálastofnanir undirgangast álagspróf. Gros segir að það sé ekki að ástæðulausu. Það sé ánægjulegt að menn séu farnir að horfast í augu við vanda banka vítt og breitt um Evrópu sem séu almennt komir út á þunnan ís.

Hins vegar veltir Gros því fyrir sér hvort ekki sé full þörf á því að Seðlabanki Evrópu (ECB) verði sjálfur látinn gangast undir slíka álagsskoðun. ECB hafi nýlega keypt vafasöm skuldabréf af Grikklandi, Írlandi og Portúgal fyrir 50 milljarða evra. Hlutur bankans í fjórum helstu vandaræðagemlingum evrusvæðisins sé yfir 200 milljarðar evra. ECB haldi því auðvitað fram, eins og allir bankar gera í slíkri stöðu, að þessari áhættu fylgi engin áhætta.