Í síðustu viku handtók norska lögreglan þrjá menn, sem komnir voru langt á veg með undirbúning hryðjuverka sem sýnilega hefðu orðið mjög mannskæð. Tveir mannanna munu vera félags menn í Al Qaeda, og sá þriðji er sagður í annarri baráttu sem hafi samstarf og samvinnu við hin samtökin. Enginn mannanna var af norskum uppruna en allir voru þeir löglega í landinu. Einn hafði þannig fengið dvalarleyfi í Noregi af mannúðarástæðum og annar vegna fjölskyldusameiningar.
Hvor tveggja heimildin, mannúðarástæður og fjölskyldusameining, er einnig í boði á Íslandi. Þarf það ekki að koma á óvart, enda hafa fæstir sæmilegir menn neitt á móti mannúð eða því að fjölskyldur fái að sameinast. Á þessum málum eru hins vegar margar hliðar, en ótrúlega algengt virðist af umræðu að menn sjái bara aðra. Margir virðast hafa það sem fyrirfram-afstöðu að standa með „hælisleitendum“, þeir segi allir satt og séu einfaldlega friðsamir sakleysingjar að flýja kúgun og illmennsku í heimalandi. Það sé „skylda okkar“ að „rétta þeim hjálparhönd“. Sumir hafa svo komið sér upp þveröfugri afstöðu, allir þeir sem flytja vilja til annars lands séu hluti af víðtæku samsæri um hryðjuverk, mansal og eyðingu Vesturlanda. Hvortveggja afstaðan er fráleit.
Mikilvægt er að umræða um þessi mikilvægu mál verði fremur byggð á þekkingu en tilfinningum og upphrópunum. Í Bóksölu Andríkis (eru tvær bækur sem eru til þess fallnar að auka þekkingu fólks á þessum málum, án þess að því sé haldið fram að þar sé samankomið allt sem menn þurfi að vita. En báðar eru þær fróðlegar og upplýsandi.
Í bók norsku blaðakonunnar Hege Storhaug, Dýrmætast er frelsið, er fjallað um innflytjendamál á Norðurlöndum og einkum í Noregi. Fjöldi innflytjenda hefur streymt til Evrópu síðustu áratugi og ásýnd hennar breytist hratt. Margir fagna því eflaust að vestræn gildi láti undan síga en þróunin hefur sínar skuggahliðar sem ekki má horfa fram hjá. Margir innflytjendanna búa við skelfilegar aðstæður, ekki síst vegna ofstækismanna í eigin röðum, en yfirvöld á hverjum stað vilja sýnast umburðarlynd og víðsýn og horfa fram hjá kynjamisrétti, trúarofstæki, heiðursmorðum, limlestingum, nauðungarhjónaböndum og fleiri ófögnuði. Það er til dæmis óhugnanlega algengt að ungt fólk úr vissum menningarheimi fái ekki að velja sér maka sjálft, heldur sé þvingað til að gerast nokkurs konar lifandi vegabréfsáritun með því að giftast ókunnum mönnum úr heimalandinu, og koma þeim þannig til nýja landsins í nafni fjölskyldusameiningar.
Í bók Karen Jespersen og Ralf Pittelkow, sem bæði eru kunn af stjórnmálastörfum og blaðamennsku í Danmörku, en Jespersen var meðal annars ráðherra í jafnaðarmannastjórn Nyrup Rasmussen og Pittelkow einn aðstoðarmanna forsætisráðherrans, Íslamistar og naívistar, er fjallað um íslamismann og þá ógn sem höfundar segja hann vera við vestræn þjóðfélög. Með íslamisma er átt við róttækan skilning á íslam og hann hefur heldur en ekki færst í aukana á liðnum árum, bæði í hinum hefðbundna múslimaheimi sem og í Evrópu þar sem hann hefur numið land með vaxandi hraða. Íslamistar stefna að því ljóst og leynt að skapa í Evrópu sérstök samfélög múslima með það beinlínis fyrir augum að íslamvæða Evrópu smám saman. Helsta stoð íslamistanna eru allt annars konar menn: naívistarnir heima fyrir. Fólkið sem veigrar sér við að horfast í augu við það sem blasir við en telur sér trú um að lykillinn að farsælli framtíð sé að gefa eftir vestræn grundvallargildi, ein í dag, önnur á morgun.
Báðar þessar bækur eru mikilvægar til skilnings á því sem gerst hefur í næstu nágrannalöndum Íslands.
Að lokum mætti svo vekja athygli á enn annarri bók Bóksölunnar. Í bókinni Nótt segir Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel frá veru sinni í útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Sú bók er ógleymanlegur vitnisburður um það sem getur gerst þegar varnarlaus þjóðfélagshópur er ofsóttur af algerri grimmd, og enginn kemur til hjálpar fyrr en seint og um síðir.