Helgarsprokið 11. júlí 2010

192. tbl. 14. árg.
Hinn 10. mars barst höfundi tölvupóstur frá Sigfúsi Gauta Þórðarsyni, lögfræðingi í bankanum, þess efnis að bankinn gæti ekki svarað fyrirspurninni fyrr en um mánaðamótin mars/apríl. Hinn 14. apríl hafði ekkert svar borist og því sendi undirritaður tölvupóst til Sigfúsar Gauta og spurðist fyrir um erindið. Í svari sem barst degi síðar sagði hann að afgreiðslan hefði tafist en vænta mætti svars á næstu dögum. Um klukkan 16:40 föstudaginn 16. apríl hafði Már [Guðmundsson] samband við höfund símleiðis. Þar tjáði hann honum að höfundur hefði tvo kosti, annars vegar að fá svar strax þann daginn og það yrði neikvætt. Hins vegar bíða í nokkra daga og fá hugsanlega jákvætt svar, en það gæti líka orðið neikvætt. Tiltók hann sérstaklega í samtalinu að höfundur skyldi síður vísa í upplýsingalögin.

Sá er þetta ritar féllst á að bíða, enda hafði seðlabankastjórinn gert undirrituðum ljóst að ella yrði honum alfarið neitað um aðgang að gögnum. Undirrituðum var alvarlega misboðið við svo þóttafulla framkomu sem vart getur samræmst yfirlýsingum ráðamanna um nauðsyn vandaðrar málsmeðferðar og faglegra vinnubragða í opinberri stjórnsýslu. Formlegt svar barst með bréfi dagsettu 30. apríl [2010]. Þar hafnaði Már alfarið að veita aðgang að nokkrum gögnum og beitt var sömu röksemdafærslu og í fyrri svarbréfum, þ.e. að bankinn væri bundinn trúnaði gagnvart viðskiptamönnum sínum.

– Björn Jón Bragason sagnfræðingur fjallar um erfiðleika við upplýsingaöflun við vinnslu greinar um aðdraganda falls Straums-Burðaráss. Þjóðmál, sumar 2010, bls. 30-31.

Á dögunum sagði Vefþjóðviljinn frá nýútkomnu sumarhefti tímaritsins Þjóðmála. Var þar meðal annars sagt frá grein Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings um aðdraganda falls fjárfestingarbankans Straums-Burðaráss, en í þeirri frásögn kemur fjölmargt fram sem ekki var áður á almennu vitorði. Sagði svo:

En þótt greinin sé fróðleg, þá er ekki síður fróðleg viðbótargrein hans, sem fjallar um þá þrautagöngu sem hann gekk til að reyna að afla upplýsinga um málið, en nær allar opinberar dyr urðu honum þá lokaðar, þrátt fyrir að ráðamenn tali sífellt um „meira gagnsæi“ og opið þjóðfélag. Fróðlegt verður hvort aðrir fjölmiðlar munu hafa áhuga á frásögnum hans af tilraunum ráðamanna til að leggja steina í götu hans við rannsóknina.

Að sjálfsögðu hafa aðrir fjölmiðlar engan áhuga sýnt á þessu, rétt eins og „aukið gagnsæi“ og „opin stjórnsýsla“ séu aðeins tískuhugtök sem ekki séu ætluð til annars en nota á blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar.

Í grein Björns Jóns kemur þó margt fram sem ætla hefði mátt að fréttamenn hefðu áhuga á, og hefðu raunar kannski haft ef ekki vildi svo óheppilega til að ríkisstjórnin sem í hlut á, er einmitt hin faglega ríkisstjórn gagnsæisins. En þá geta menn leitað fróðleiks í Þjóðmálum, en bæði nýútkomið sumarhefti þess og almenn áskrift að tímaritinu fæst í Bóksölu Andríkis.

Það má grípa niður víðar í grein Björns Jóns. Hér er annar bútur:

Í ljósi þess hversu fátæklegt var um að litast í skjalageymslum fjármálaráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis fór höfundur þess á leit við þá Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra og Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, að þeir veittu honum viðtal. Var beiðni þar að lútandi send bréfleiðis hinn 9. nóvember 2009. Ritari fjármálaráðherra hringdi til undirritaðs að morgni 11. desember og tilkynnti honum að ráðherra hefði neitað honum um viðtal. Hins vegar mætti undirritaður eiga von á bréfi þar sem afstaða ráðuneytisins yrði skýrð frekar. Það bréf barst aldrei. Skömmu fyrir áramótin hringdi höfundur til ritara efnahags- og viðskiptaráðherra og spurðist fyrir um afdrif beiðninnar um viðtal við ráðherrann. Ritarinn kvaðst myndu kanna málið. Skömmu eftir áramót barst höfundi svarbréf viðvíkjandi beiðnum um viðtöl við ráðherrana. Bréfið frá fjármálaráðuneytinu var svohljóðandi:
 

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. nóvember 2009 þar sem þér óskið eftir viðtali við fjármálaráðherra vegna ofangreindrar rannsóknar, en þ. 8. nóvember s.l. mun ráðuneytið hafa sent yður ýmis gögn er tengjast máli þessu
Með hliðsjón af eðli málsins mun ráðherra ekki vera til viðtals.

Svar efnahags- og viðskiptaráðuneytis var á þessa leið:

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. nóvember 2009, þar sem þér óskið eftir viðtali við efnahags- og viðskiptaráðherra vegna rannsóknar á aðdraganda þess að Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. var færður undir skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins, en þann 19. nóvember sl. mun ráðuneytið hafa sent yður ýmis gögn er tengast máli þessu.
Með hliðsjón af eðli málsins mun ráðherra ekki vera til viðtals.

Bæði eru þessi bréf dagsett 12. janúar 2009. Seinna bréf undirritaðs til Fjármálaeftirlitsins var póstlagt hinn 8. janúar og hefur líkast til borist 9. eða 10. sama mánaðar. Ekki verður fullyrt um að tengsl séu þarna á milli en sérstakt er að ráðuneytin tvö „samhæfi framburð sinn“ skyndilega með þessum hætti og svo löngu eftir að beiðnirnar um viðtöl bárust þeim.