Laugardagur 10. júlí 2010

191. tbl. 14. árg.

A ð undanförnu hefur Seðlabanki Íslands auglýst í dagblöðum eftir tveimur hagfræðingum  sem starfa eiga á hagfræðisvið bankans. Hagfræðingunum er ætlað „gera þjóðhags- og verðbólguspár“ og „taka þátt í mótun stefnunnar í peningamálum“. Hér hljóta að vera mjög góð laun í boði. Hagfræðingur sem uppfyllir þessi skilyrði, getur séð þróun mála fyrir og ákveðið rétt verð á fjármagni úr skrifborðsstól við Kalkofnsveg, gæti orðið auðkýfingur á nokkrum misserum á verðbréfamörkuðum. Hann gæti sjálfsagt líka fengið gott starf hjá kínverska kommúnistaflokknum en sá flokkur myndi þiggja slíkan mann sem getur séð gegnum hollt og hæðir efnahagslífsins úr skrifborðsstól í ráðuneyti. Þá þyrftu Kínverjar ekki að ganga lengra í markaðsumbótum. Það væri hægt að ná sama árangri úr snoturri ríkisstofnun. Þetta er einmitt maðurinn sem Sovétríkin vantaði alltaf til að móta stefnuna í verðlagsmálum á peningum, stígvélum og kartöflum. Þá hefðu Sovétríkin ekki þurft að hrynja þótt skilaboð bærust ekki frá neytendum til fyrirtækja í gegnum verðlag á markaði.

Það kemur hins vegar á óvart að Seðlabankinn þurfi fleiri hagspámiðla til starfa. Þeir þrír hagfræðingar sem eiga stærstan þátt í glæsilegri mótun stefnunnar í peningamálum undanfarinn áratug, verðbólgumarkmiðsins, eru allir að störfum í bankanum sem æðstu stjórnendur hans.