Föstudagur 9. júlí 2010

190. tbl. 14. árg.

H verjir ætli séu pólitískir ráðgjafar Lúðvíks Geirssonar? Eða lét flokksskrifstofan gera viðhorfskönnun um málið? Nema auðvitað Lúðvík sé sjálfur maðurinn á bak við allt saman.

Fyrir fjórum árum var Lúðvík oddviti og bæjarstjóri Samfylkingarinnar sem fékk sjö bæjarfulltrúa af ellefu í Hafnarfirði. Honum datt þá í hug að bjóða sig fram til þings og vildi efsta sætið í suðvesturkjördæmi. Ekki náðist það, en kjósendur settu Lúðvík samt í öruggt sæti. Ekki þáði hann það sæti heldur fór í það sem hann hélt að yrði baráttusæti. Þaðan komst hann ekki inn á þing.

Nú í vor var hann óskoraður leiðtogi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Þá ákvað hann að biðja um sjötta sætið á framboðslistanum, sæti sem ekki ynnist nema Samfylkingin fengi hreinan meirihluta. Það náðist ekki.

Í gær hætti Lúðvík svo sem bæjarstjóri, enda orðin útbreidd skoðun að hann hefði í raun ekki umboð bæjarbúa til að gegna því. Nú er Vefþjóðviljinn enginn sérstakur aðdáandi Lúðvíks Geirssonar, en blaðið kemst þó ekki hjá því að spyrja, hver hafi þá umboð til þess starfs. Lúðvík var þó bæjarstjóraefni þess flokks sem flest atkvæði fékk. Þessi Guðmundur sem var ráðinn í gær, hefur hann meira umboð en Lúðvík þó hafði?

Aldrei hefði Lenín látið fara svona með sig.