Fimmtudagur 8. júlí 2010

189. tbl. 14. árg.

E ins og menn muna og sjá um hver mánaðamót í veskinu sínu hækkaði vinstri stjórnin nær alla skatta á síðasta ári. Tekjuskatta einstaklinga og fyrirtækja, virðisaukaskatt, tryggingagjald, skatta á eldsneyti og svo framvegis. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða áhrif svona miklar skattahækkanir hafa á atvinnulíf og framkvæmdaþrek manna. Það var ótrúlegt óþurftarverk að veita heimilum og fyrirtækjum þetta högg þegar þau voru veik fyrir af öðrum ástæðum.

Ríkisstjórnin viðurkenndi raunar nær samstundis að þessar skattahækkanir myndu hafa þau áhrif að menn hnipruðu sig saman og biðu betri tíðar, lægri skatta og nýrrar stjórnar. Þess vegna hækkaði hún endurgreiðslu virðisaukaskatts af svonefndri vinnu á byggingarstað í þeirri von að einhver myndi taka fé undan koddanum og skipta um glugga. Og nú hefur stjórnin aftur viðurkennt að skattahækkanir hennar drepi allt í dróma. Því býður hún fólki að lækka hjá sér tekjuskattsstofninn vegna vinnu á byggingarstað.

Þetta stefnir allt í sömu átt. Skattar eru hækkaðir en svo geta menn sótt um að fá hluta peninganna sinna til baka ef þeir hegða sér með ákveðnum hætti. Vinsamlega sækið um í þríriti á næstu skattstofu og látið reikninga fylgja. Það er búið að fjölga starfsfólki hjá skattinum til muna svo þetta verður afgreitt innan tveggja mánaða.