Miðvikudagur 7. júlí 2010

188. tbl. 14. árg.

Þ að er alltaf sama fagmennskan á Ríkisútvarpinu. Lítið dæmi frá því í dag er frétt sem Ríkisútvarpið sagði af deilum vegna nýrra innflytjendalaga í bandaríska ríkinu Arizona, en bandarískir vinstrimenn og fjölmiðlar þeirra eru mjög á móti lögunum. Í frétt íslenska ríkisútvarpsins sagði:

Barack Obama forseti og ríkisstjórn hans hafa gagnrýnt lögin en samkvæmt þeim verður það refsivert að vera í ríkinu án tilskilins leyfis. Lögreglumenn í ríkinu mega stöðva hvern sem er, og krefjast skilríkja án nokkurrar ástæðu.

Ætli þetta sé rétt hjá Ríkisútvarpinu, að lögin heimili lögreglumönnum að stöðva hvern sem er, án nokkurrar ástæðu? Ja svona álíka rétt og svo margt annað sem fagmennirnir á fréttastofu Ríkisútvarpsins dæla yfir landsmenn. Staðreyndin er þvert á móti sú, að samkvæmt hinum nýju lögum í Arizona, þá má lögreglan ekki stöðva menn og krefjast skilríkja, nema þeir séu undir rökstuddum grun um að hafa framið lögbrot og má þá aðeins kanna búsetuheimild þeirra ef hegðun þeirra vekur sérstakar grunsemdir um að þeir séu ólöglegir í landinu.

Þessi rangfærsla í fréttum Ríkisútvarpsins þykir sjálfsagt ekki stórmál. Menn eru svo vanir að það þyki í lagi að fullyrða bara eitthvað út í loftið, að þeir kippa sér ekkert upp við „örlitla ónákvæmni“ í frétt um einhver útlend lög sem engu skipta hér. En þetta er bara eitt örlítið dæmi af ótalmörgum um það sem Ríkisútvarpið ber linnulítið á borð fyrir áhorfendur og hlustendur. Og ekkert er leiðrétt, enginn biðst afsökunar – að ekki sé minnst á óskahugtakið „axlar ábyrgð“ eins og starfsmenn Ríkisútvarpsins sakna svo oft hjá öðru fólki.

R íkisútvarpið sagði aðra litla frétt úr bandarískum stjórnmálum í dag. Þá var sagt frá þeim stórtíðindum að ríkisstjórinn á Hawaii, hvorki meira né minna, hefði beitt neitunarvaldi gegn nýjum lögum í ríkinu sem hefðu veitt þeim, sem eru í staðfestri samvist með einstaklingi af sama kyni, þau réttindi sem hjónaband veitir. Þessar deilur um hjónabandsskilning á Hawaii þykja auðvitað mjög merkilegt fréttaefni í Efstaleitinu, og nú var þess vandlega gætt að taka fram að ríkisstjórinn, sem beitti neitunarvaldinu, væri repúblikani.

Auðvitað var í lagi að taka það fram, úr því að fréttin var sögð. Sem minnir á smámálið sem nefnt var hér á dögunum, þegar lést sá maður sem lengst allra hafði setið í öldungadeild Bandaríkjaþings. Þá var tekið fram í frétt Ríkisútvarpsins að hann hefði meðal annars verið félagi í Ku Klux Klan og verið umdeildur vegna skoðana sinna á minnihlutahópum. En þá vildi svo til, að í langri upptalningu á ferli mannsins var ekki nefnt einu orði í hvaða flokki hann var. Hann var auðvitað demókrati.

Jú, vissulega getur þetta verið tilviljun eins og svo margt annað.