Þriðjudagur 8. júní 2010

159. tbl. 14. árg.
Sigmar Guðmundsson fréttamaður: Er það ekki rétt sem Helgi Hjörvar segir að það hafi verið forsætisráðuneytið sem þrýsti á um þessar breytingar?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra: Veistu, ég hef ekki hugmynd um það. Ég var ekkert í þessum samskiptum á milli ráðuneytisins og nefndarinnar þegar þessi lagabreyting gekk yfir.

– Kastljós Ríkissjónvarpsins 7. júní 2010.

U m áratugaskeið hafa helstu áhugamál Jóhönnu Sigurðardóttur verið „laun toppanna í þjóðfélaginu“, sjálftökuliðið, ferðapeningar, bílastyrkir og önnur hlunnindi. Þær eru óteljandi fyrirspurnirnar sem hún hefur lagt af alvöruþunga fyrir ráðherra um þessi hugðarefni sín.

Nú kannast hún hins vegar ekkert við breytingar á lögum sem gerðar voru að frumkvæði hennar eigin ráðuneytis svo hækka megi laun við seðlabankastjóra. Það eru bara undirsátar hennar sem bera ábyrgð á slíkum lagabreytingum sem Jóhanna kallar „tæknilegar“.

Hún gerir heldur engan reka að því að upplýsa hver það var í ráðuneyti hennar sem lofaði Má Guðmundssyni launahækkun, eins og bæði Már sjálfur og Lára V. Júlíusdóttir hafa fullyrt að ráðuneytið hafi gert.

Allt sem Jóhanna gerir rangt eru bara tæknileg mistök einhverra ótilgreindra skriffinna í ráðuneyti hennar. „Veistu, ég hef bara ekki hugmynd um það.“ Allt sem aðrir ráðherrar en Jóhanna hafa gert undanfarna áratugi hefur hins vegar verið stórkostleg sjálftaka, spilling og siðleysi.

En svo var það ákveðið afrek hjá Kastljósinu í gær að muna ekki eftir sms-inu frá forvera Jóhönnu í formannsstóli Samfylkingarinnar. Skilaboðin sendi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra 2. október 2008:

hef lengi heyrt umtalsverda gagnryni ur fjarmalageiranum á ad SI sé ekki faglega sterkur a svidi fjarmalastodugleika og hafi nu ordid faa innanbudar sem thekki til a lanamorkudum sbr. thad sem gerdist hjá Bayerische Landesbank. Hugsanlega tharf rikisstjornin ad styrkja sina adkomu. Bendi a Ynga Örn i Lsb. Gerdu svo Má Gudmundsson ad Sedlabankastjora i stad DO. Thad mun thykja traust. Hann hefur samböndin. Ég held ad thetta sé ákv ögurstund. Kv Isg