Miðvikudagur 9. júní 2010

160. tbl. 14. árg.

M einlokumenn á Alþingi halda áfram nótt sem nýtan dag. Ekki við neitt sem gæti hjálpað atvinnulífi eða illa stæðum einstaklingum, heldur snýst allt um þá flugu sem meinlokumennirnir hafa á heilanum hverju sinni. Nú þarf ekki að banna flengingar eða nektardans svo nú á „stjórnlagaþing“ hug þeirra allan. Því það er víst „allt of erfitt að breyta stjórnarskránni“.

Stundum er eins og þessir menn hafi ekki hugmynd um hvað stjórnarskrá er, eða hvers vegna henni verður ekki breytt eins og hendi sé veifað.
Flestöll ríki eiga sér einhverjar grundvallarreglur um þjóðfélagsskipanina og allra mikilvægustu réttindi og í sumum tilfellum skyldur borgaranna. Þetta eru reglur sem menn telja öllum dægursveiflum æðri, byggðar á reynslu kynslóðanna og geymi fá en skýr grundvallaratriði. Þessar reglur eru settar í stjórnarskrá, sem önnur lagafyrirmæli og reglur víkja fyrir. Ákaflega erfitt er að breyta stjórnarskrám enda eiga grundvallaratriði ríkis ekki að breytast með vindáttinni. Sums staðar er gerð ein stjórnarskrárbreyting á öld og varla það.

Hér á Íslandi hefur stjórnarskránni verið margoft breytt á síðustu árum, enda hafa froðusnakkar mikil áhrif á íslenska stjórnmálaumræðu og þeir sem skilja grundvallaratriði eins og stjórnarskrá eru úthrópaðir sem leiðindapúkar eða dragbítar á „vilja fólksins“. Menn sem ekki skilja stjórnarskrár hafa bitið í sig alls kyns pólitískar kenningar sem þeir halda að eigi erindi í stjórnarskrá, og eru hinir verstu yfir því að henni sé ekki breytt hið snarasta, því „allir“ séu sammála um að „nauðsynlegt“ sé að „endurskoða“ stjórnarskrána.

Nákvæmlega engin þörf er á því að endurskoða stjórnarskrána. Ekkert við bankahrunið eða efnahagsástandið kemur stjórnarskránni við. Allt eru þetta upphrópanir í fólki sem skilur ekki hvað stjórnarskrá er. Því miður á það marga fulltrúa á þingi og í umræðuþáttum fjölmiðlanna.

E n gaman yrði að sjá svipinn á spekingum þegar kosningabarátta til „stjórnlagaþings“ hæfist. „Ísbjörn í stjórnarskrána“ myndu þá segja frambjóðendur, sem í raun vildu eitthvað allt annað í stjórnarskrána, en neituðu að segja hvað það væri. Og ef einhverjir þyrðu að andmæla þessum frambjóðendum, þá myndu gaparar svara, fullir sjálfsöryggis: „Hva, það væri ekkert vitlausara en nú er í stjórnarskránni. Ég kýs þá.“ Eftir kosningarnar myndu aðrir fulltrúar hlaupa til og semja við þessa, gegn því að fá eitthvert smáræði í staðinn.

En hættan á slíku er auðvitað aukaatriði. Aðalatriðið er það, að engin ástæða er til að breyta stjórnarskránni. Ef einhver nauðsyn er á breytingum, þá á Alþingi að sjá um þær. Það að Alþingi láti það ógert, er einfaldlega til marks um að nauðsynin sé ekki mikil, heldur sé einfaldlega verið að reyna að troða dægurstjórnmálakenningum inn í grundvallarreglur ríkisins.