S óley Tómasdóttir skýrði frá því í dag að hún hygðist leita réttar síns. Hún mun hafa verið ausin svívirðingum í kosningabaráttunni í borginni og óhróðurinn gengið jafnvel gengið svo langt að hún hafi verið kölluð róttækur femínisti.
Það er því skiljanlegt að henni sé nóg boðið.
Sumir, þó ekki Sóley sem ekki er róttækur femínisti, hafa gríðarlegan áhuga á vændi og telja það einhvern versta glæp sem hægt er að fremja. Kynjafræðingar rannsaka málið og Ríkisútvarpið flytur reglulega um það langar þáttaraðir.
Auðvitað er ekki ástæða til að gera lítið úr því, að þess eru dæmi að fólk sé neytt til að vinna við vændi. Það er nauðung. Það er vitaskuld mjög alvarlegur glæpur. Því ákafar sem vændi er úthýst af yfirborði jarðar, leitar það dýpra í undirheimana og vafasamari einstaklingar taka málin í sínar hendur. Það sem margir hóphyggjumenn gleyma í bannáráttu sinni, að það fólk er til sem stundar vændi af fúsum og frjálsum vilja. Það fólk er því sem næst rekið í undirheimana, með ofstækisfullum bönnum velviljaðra ákafamanna sem halda að allir hafi sama gildismat.
Á dögunum var kona nokkur dæmd fyrir ýmis brot hér á landi, þar á meðal hórmang. Ef marka má dóminn og lýsingar vitna er hér harðsvíraður brotamaður á ferð, og sjálfsagt að hún fái dóm fyrir brot sín. En þegar vitnaframburður er lesinn þá kemur í ljós öllu fjölbreyttari mynd en jafnan er dregin upp í þáttaröðum Ríkisútvarpsins:
„Ákærða hefði stjórnað vændinu og séð um að selja kynlífsþjónustu stúlknanna. Vændið hefði vitnið stundað að Hverfisgötu […] og þar hefði hún einnig búið.“ … „Vitnið kvaðst hafa þénað meira en milljón þennan mánuð sem hún vann fyrir ákærðu á árinu 2008.“ … „Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa verið neydd til að stunda vændi heldur hefði hún gert það af fúsum og frjálsum vilja. Áður en vitnið fór að vinna fyrir ákærðu, hefði hún stundað vændi á eigin vegum á […].“ … „Vitnið kvaðst ekki hafa stundað vændi fyrr en hún kom hingað til lands. Þá kvaðst hún enn stunda vændi hér á landi. Útskýrði hún muninn á því að stunda vændi fyrir ákærðu annars vegar og hins vegar fyrir sjálfa sig, á þann veg að í seinna tilvikinu nyti hún allra peninganna sjálf.“ |
Nú er Vefþjóðviljinn enginn áhugamaður um að fólk stundi vændi. Vel gæti hann trúað því að margir þeirra, sem það geri, gætu hugsað sér að starfa við eitthvað annað. Það er einfaldlega rétt að minna á, að fólk hefur ólíkt gildismat og menn eiga að fara varlega í að banna öðru fólki að taka ákvarðanir um eigið líf.
En það á að taka af fyllstu hörku á því fólki sem neyðir aðra til að stunda vændi.