Á rið er ekki hálfnað en samt er skemmtilegasta bók ársins komin út. Eitt allra vinsælasta skáld landsins síðustu áratugi, Þórarinn Eldjárn, hefur sent frá sér kver sem hann nefnir Vísnafýsn, og munu margir þess mjög fýsandi að lesa og læra vísur hans. Í Vísnafýsnum kennir margra grasa, flestra grænna en inn á milli eru stingandi strá sem ekki verða síður minnisstæð.
Ein eftirminnileg vísa heitir Gróa á Efstaleiti og segir frá einhverjum ónefndum manni í Efstaleiti sem nægir ekki ljósvakinn til að dreifa óhróðri sínum:
Þegar hún Gróa á Efstaleiti lýgur
er ljósvakinn varla nægur
og orðrómurinn um allar jarðir flýgur,
svo óhlutdrægur.
Viðurnefnið Gróa á Efstaleiti, augljóst þegar búið er að benda á það, er dæmigert fyrir hugkvæmni Þórarins, og þarf ekki að efast um lífsseiglu þess í framtíðinni.
Um kvæðamanninn Steindór Andersen, sem varð landskunnur fyrir samstarf sitt og ungra tónlistarmanna, yrkir Þórarinn:
Sigurrósar voðavein
vella út um landið
þegar Steindórs stemma hrein
styrkir ekki bandið.
Ef þeir hagga honum við
hljóðin þagga sér til tjóns
engu flaggar lúið lið
líkt og Jagger vanti í Stones.
Og skyldu menn nú ekki kannast við þessa lýsingu úr þjóðmálaumræðunni, þar sem frasarnir dynja á fólki seint og snemma:
Fjölmargir fundir
með fögrum orðum:
Allt er undir
og uppi á borðum.
Aðeins eitt
er þar boðað:
Akkúrat ekki neitt –
en allt verður skoðað.
Jón Sigurðsson forseti kemst á blað:
Sjálfstæðisins hetja heit
hafnaði öllu fúski.
Fimur vopnið fann sem beit:
Frelsaði oss með grúski.
Og íslenskur nútími, þar sem óvitar vaða uppi og segja öðrum til, sannfærðir um eigin getu, fær þessa einkunn:
Teljast stórfljót allar litlar lænur
í landi hér
þar sem eggin reka háskóla fyrir hænur
og hreykja sér.
Og ekki á kvæðið Brýnt óbrýnna erindi við nútímann:
Vitur er vert að sýnast
við öllu sjá
fyrir fram.
Það er þó allra brýnast
eftir á.
Jamm
og já.
Vísnafýsn geymir rúmlega sjötíu vísur í þessum dúr. Gamlir og nýir lesendur Þórarins verða ekki sviknir af því að svala þeim um stund.