Laugardagur 5. júní 2010

156. tbl. 14. árg.

H annes H. Gissurarson prófessor setti fram þá kenningu í Pressunni á dögunum að eðlilegt væri að fyrirtæki styrktu hægri flokka eins og Sjálfstæðisflokkinn því þeir væru jú hlynntir frjálsu atvinnulífi. Að sama skapi væri það grunsamlegt ef fyrirtæki styrkti vinstri flokka eins og Samfylkinguna eða VG sem vildu takmarka athafnafrelsi manna.

Þetta er langsótt hjá prófessornum.

Í fyrsta lagi vilja alls ekki öll fyrirtæki meira atvinnufrelsi. Fyrirtæki hafa sína sérhagsmuni eins og aðrir. Mörg fyrirtæki starfa í skjóli hafta og reglna sem ríkisvaldið setur. Þannig er því til að mynda farið með stóran hluta af íslenskum landbúnaði og matvælavinnslu úr landsins gæðum. Annað dæmi gæti verið áfengisinnflytjandi sem hefur sterka stöðu í verslunum ÁTVR. Ætli hann sé endilega mjög hrifinn af því að leyfa hverjum sem er að selja áfengi yfir búðarborð? Þá þyrfti hann að leita samninga við marga litla aðila í stað ríkiseinokunarinnar.

Það er svo sérstakur misskilningur að stór fyrirtæki með sterka stöðu á markaði séu spennt fyrir auknu frelsi. Færri reglur, minna eftirlit og lægri skattar lækka þröskuldinn inn á markaðinn fyrir ný fyrirtæki. Þar með aukast líkur á að fyrirtækin sem fyrir eru fái fleiri keppinauta. Það er fastur kostnaður af mjög mörgum kvöðum sem hið opinbera leggur á fyrirtæki. Lítil fyrirtæki eiga því oft í erfiðleikum með þennan kostnað en stór fyrirtæki munar hlutfallslega minna um hann. Hið opinbera er farið að kalla eftir alls kyns gögnum og upplýsingum um rekstur fyrirtækja til dæmis um útflutning og umhverfismál. Af þessu er hér um sama umstang fyrir lítið og stórt fyrirtæki en þetta er þungbært fyrir litla fyrirtækið.

Svo geta fyrirtæki haft sérstök áhugamál eins og aðild að Evrópusambandinu án þess að það rími fremur við stefnu hægri flokks en vinstri flokks.

En nú er svo gott sem búið að banna fyrirtækjum að styrkja stjórnmálaflokka. Fyrirtækin munu því í auknum mæli styrkja nokkurs konar fylgihnetti stjórnmálaflokkanna eða hreinlega setja launaða álitsgjafa á flot vegna hagsmuna sem þau vilja verja. Flokkarnir munu jafnvel sjálfir veita fjármunum, sem þeir fá úr ríkissjóði, til að styðja við verkefni af þessu tagi. Um þetta eru þegar farin að sjást merki. Að menn haldi að þeir hafi losnað við peninga úr pólitíkinni með því að banna fyrirtækjum er styrkja flokka og frambjóðendur beint er fullkomið dómgreindarleysi.

S já menn ekki hvernig eiturspúandi náttúran hefur dælt mengun yfir bíla landsmanna?