H vað þykir spekingum aftur hafa einkennt hugarfar á Íslandi misserin fyrir bankahrun og hafði að þeirra sögn mikil áhrif á hvernig fór í viðskiptalífinu? Var það ekki gagnrýnisleysi, hjarðhegðun, áhugaleysi á alvöru umræðu og heift gagnvart þeim sem voru taldir geta spillt stemmningunni með því að vantreysta þeim sem þóttu sniðugastir og flottastir?
F áfengileiki íslenskrar fjölmiðlaumræðu er ótrúlegur. Stjórnmálaflokkur einn hefur nú náð sex borgarfulltrúum kjörnum án þess að segja frá stefnu sinni, sem þó hefur verið upplýst að sé til – því meirihlutaviðræður voru hafnar strax eftir kosningar við þann flokk sem þessi sagði standa sér næst. Fjölmiðlum finnst aldrei ástæða til að velta fyrir sér hvort eitthvað sé óeðlilegt við framgöngu forsvarsmanna þessa nýja flokks – þetta er allt svo skemmtilegt.
Fjölmiðlar hafa raunar ekki sýnt gagnrýninn áhuga á neinu atriði varðandi hinn nýja flokk og helstu menn hans, nema einu. Eitt atriði réðu íslenskir fjölmiðlamenn við að velta fyrir sér: Ætlar Jón Gnarr að halda áfram sem leikskáld í Borgarleikhúsinu? Þar er komið mál sem getur fengið íslenska fjölmiðla til að ranka við sér örstutta stund: Er einhver að fá eitthvað? Fær maðurinn borgað á tveimur stöðum? Þar er mál sem fjölmiðlamenn skilja. Ekkert annað í fari Besta flokksins hefur kallað á gagnrýna umfjöllun eða athugun síðustu mánuði. Það breyttist ekki eftir að kannanir sýndu að flokkurinn gæti komið allnokkrum mönnum í borgarstjórn og hefur ekki breyst eftir kosningar. Ætlar Jón Gnarr að halda áfram sem leikskáld?, er það eina sem þarf að fjalla um. Áhugi íslenskra fjölmiðla á aukaatriðum, og skilningsleysi þeirra á aðalatriðum, er einstakt.
Hvenær ætli íslenskir fjölmiðlamenn skilji að þessi stjórnmálaflokkur hefur sex kjörna fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur? Það verður að meðhöndla flokkinn, forystu hans og fulltrúa sem valdamenn en ekki sem skemmtikrafta, jafnvel þótt efsti maður listans sé viðkunnanlegur.
S vo mikill er ákafinn að slá ekki á stemmninguna í kringum Besta flokkinn, að ótal álitsgjafar taka því sem sjálfsögðum hlut að flokkurinn geri það að skilyrði í meirihlutaviðræðum að samningsaðilarnir horfi á tiltekna bandaríska sjónvarpsþáttaröð. Oddviti Samfylkingarinnar, fyrrverandi borgarstjóri, tekur ábúðarmikill við eintaki af þáttunum og sat líklega við skjáinn í alla nótt og reyndi að læra einhverjar línur úr þáttunum til að nota á næsta fundi með Jóni Gnarr. Slík er sjálfstýring þeirra sem vilja halda glansmyndinni á Besta flokknum, að þetta er strax varið, með vandlegum útskýringum á því hversu góðir þættirnir séu og hvað mikið megi læra af þeim um heiminn í dag.
Hvernig ætli menn létu ef frést hefði að Björn Bjarnason hefði krafist þess að samstarfsmenn hans horfðu á eina seríu af 24, til að þeir skyldu nauðsyn öflugra varna við hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi?